„Það er verið að búa til einhvern strámann úr einhverju sem er engin ógn í í gegnum þennan þriðja orkupakka. Í rauninni voru báðir fyrstu pakkarnir miklu stærri og mikilvægari. Sérstaklega fyrir íslenska neytendur[...]Það eru aðrar tilskipanir sem hafa haft miklu meiri áhrif á okkur, eins og til dæmis persónuverndartilskipunin.“
Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í viðtali við Þórð Snæ Júlíussyni, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 sem frumsýndur var á Hringbraut á miðvikudagskvöld þegar rætt var um þriðja orkupakkann svokallaða.
Auk hennar var Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gestur þáttarins. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Þorgerður Katrín kallaði eftir því að ríkisstjórnin horfist í augu við eigin ábyrgð þegar kæmi að þriðja orkupakkanum og sagði að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra þyrfti að fara að stíga fram og þora að segja eitthvað, í stað þess að halda sig á hliðarlínunni og láta ráðherra orkumála, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, taka mesta skaflinn og umræðuna um málið. „Ég sakna þess náttúrulega að forysta og formaður Sjálfstæðisflokksins og líka formaður Framsóknarflokksins sýni nú svolitla forystu í þessu máli sjálfir og stigi inn í en séu ekki í einhverju stressi gagnvart Miðflokknum.[...]„Formaður Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins þeir segja ekki bofs af því þeir eru svo laf- skíthræddir við Miðflokkinn.“
Stjórnarandstaðan gæti hjálpað málinu í gegn en ekki án skilyrði
Logi segir að það sé holur hljómur í málflutningi andstæðinga þriðja orkupakkans, sem leiddur er af Miðflokknum. Varaformaður og formaður hans, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi verið annars vegar utanríkisráðherra og hins vegar forsætisráðherra þegar undirbúningur að innleiðingu þriðja orkupakkans hafi átt sér stað.
Hann segir það vel koma til greina að stjórnarandstaðan komi þeim hluta stjórnarinnar sem vilji klára innleiðingu þriðja pakkans til bjargar ef með þurfi, þótt það verði ekki án skilyrða. „Við sáum það auðvitað í Noregi að það gerðist að Verkamannaflokkurinn kom inn og keyrði þetta mál í gegnum ríkisstjórnina en Verkamannaflokkurinn gerði það ekki án skilyrða. Og við munum áskilja okkur allan rétt til þess að ræða hvaða aðrar breytingar þurfa að eiga sér stað hér á umhverfinu í stjórnmálunum.
Logi segir að Ísland geti ekki bara valið það sem landið vilji úr EES-samningnum, en látið annað eiga sig. „Við eigum hér í sambandi við fjöldamörg ríki sem hafa fært okkur mikinn efnahagslegan ávinning.[...]Það skiptir okkur miklu máli. Það er mikill ábyrgðarhluti að nota svona mál, keyra það áfram með lygum og útúrsnúningi, til þess að koma í rauninni sprungum í okkar risastóra hagsmunamál sem er EES-samningurinn. Ég tek undir með Þorgerði Katrínu að þá verða menn bara að segja það hreint út að þeir vilji ekki þann samning.“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var gestur Þórðar Snæs í þættinum 21 á Hringbraut 13. október síðastliðinn þar sem hún ræddi þriðja orkupakkann. Hægt er að sjá viðtalið við hana í heild hér að neðan.