Frumvarp til laga um lækkun kosningaaldurs fyrir sveitarstjórnarkosningar í 16 ár hefur verið lagt fram í annað sinn. Andrés Ingi Jónsson þingmaður Vinstri grænna er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en nú er það lagt fram af fulltrúum allra flokka nema Miðflokks og Flokki fólksins.
Í mars síðastliðnum náðist ekki að greiða atkvæði um frumvarp um lækkun kosningaaldurs á þingi vegna málþófs og urðu því ekki breytingar á lögum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar sem haldnar voru í lok maí á þessu ári.
Andrés Ingi segir í samtali við Kjarnann að nú hafi þingið heilan þingvetur til að ná þessu í gegn og því sé tímapressan minni en síðast.
Ýmis skyld þingmál hafa áður verið lögð fram á þingi. Þau hafa miðað að því að lækka kosningaaldur almennt, þ.e. bæði í alþingiskosningum og sveitarstjórnarkosningum, úr 18 árum í 16 ár. Hér er hins vegar lagt til að stíga skrefið til hálfs með því að leggja einungis til breytingar á kosningaaldri í kosningum til sveitarstjórna sem krefst aðeins einfaldrar lagabreytingar.
9.000 þúsund manns fá tækifæri til að kjósa
Við umfjöllun frumvarpsins síðasta vetur komu fram þau sjónarmið að of skammur tími væri til stefnu til að undirbúa breytinguna fyrir sveitarstjórnarkosningar það sama vor og var þriðju umræðu því ekki lokið. Málið er nú endurflutt með breytingum sem þá voru samþykktar við aðra umræðu, segir í greinargerð með frumvarpinu.
Í henni kemur jafnframt fram að frumvarpið sé lagt fram til að styðja við lýðræðisþátttöku ungs fólks og auka tækifæri þess til að hafa áhrif á samfélagið sem virkir og ábyrgir þátttakendur. Verði frumvarpið að lögum munu aldursmörk kosningarréttar í sveitarstjórnarkosningum miðast við 16 ára aldur í stað 18 ára eins og nú er. Muni þá um 9.000 manns fá tækifæri til að hafa á kjördegi áhrif á mikilvægar ákvarðanir sem varða líf og umhverfi þeirra sem ekki njóta þessara grundvallarréttinda lýðræðisins að óbreyttum lögum.
„Dræm og dvínandi þátttaka ungs fólks í kosningum til löggjafarþinga og sveitarstjórna er víða staðreynd og veldur áhyggjum af framtíð lýðræðis. Þykja líkur til þess að fólk geti orðið afhuga stjórnmálaþátttöku og snúist af braut lýðræðislegrar stefnumótunar og ákvarðanatöku, þar sem málum er ráðið til lykta með umræðu og síðan kosningum, ef ekki gefst kostur á þátttöku jafnskjótt og vitund einstaklingsins um áhrifamátt sinn og ábyrgð á eigin velferð og samfélagsins hefur vaknað. Að sjálfsögðu eiga hér einnig við hin almennu sjónarmið um lýðræðislega framkvæmd, þ.e. að mikil og víðtæk þátttaka í kosningum gefi traustasta vitneskju um vilja borgaranna og því mikilvægt að sem allra flestir njóti atkvæðisréttar,“ segir í greinargerðinni.
Kosningaaldri síðast breytt árið 1984
Kosningaaldri var síðast breytt á Íslandi árið 1984 þegar hann lækkaði úr 20 árum í 18 ár. Það gerðist í samvinnu allra flokka á þingi, enda í takt við þróun sem fór af stað nokkru fyrr í mörgum nágrannalöndum Íslands. Fyrsta ríkið til að taka upp 18 ára kosningaaldur var Tékkóslóvakía árið 1946 en árið 1970 urðu Bretland og Þýskaland fyrstu ríkin í Vestur-Evrópu til að lækka kosningaaldurinn í 18 ár.
Í greinargerðinni kemur fram að niðurstöður íslensku kosningarannsóknarinnar hafi gefið sterkar vísbendingar um minnkandi kosningaþátttöku ungs fólks frá því að rannsóknin hófst árið 1983.
Hagstofa Íslands hefur kallað eftir upplýsingum frá kjörstjórnum um kjörsókn eftir fæðingarári við almennar kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur frá og með árinu 2014. Þar með hefur verið hægt að greina nákvæmlega þá stöðu sem íslenska kosningarannsóknin hafði áður aðeins gefið til kynna. Niðurstöður Hagstofu Íslands eftir þær kosningar sem fram hafa farið undanfarin ár, þ.e. sveitarstjórnarkosningar 2014 og 2018, forsetakjör 2016 og alþingiskosningar 2016 og 2017, staðfesta það sem kosningarannsóknin hafði dregið fram, þ.e. að kosningaþátttaka ungs fólks er minni en meðal eldri kjósenda. Þetta var sérstaklega skýrt í sveitarstjórnarkosningum þar sem kosningaþátttaka fólks undir þrítugu var undir 50 prósent þótt meðalkjörsókn hafi verið 67 prósent.
Verður að grípa til margþættra aðgerða
Í greinargerðinni segir að til að bregðast við dræmri kosningaþátttöku meðal ungs fólks sé nauðsynlegt að grípa til margþættra aðgerða. Eitt dæmi þar um sé verkefnið „Kosningavakningin: #ÉGKÝS“, sem Landssamband ungmennafélaga og Samband íslenskra framhaldsskólanema halda utan um. Átakið miðar að því að efla lýðræðisvitund og hvetja ungt fólk til að taka upplýsta ákvörðun um ráðstöfun atkvæðis síns.
Fyrir síðustu alþingiskosningar var þetta meðal annars gert með því að halda fundi ungs fólks um allt land með frambjóðendum og skipuleggja skuggakosningar í framhaldsskólum. Vel tókst til við átakið fyrir kosningarnar haustið 2016 en í skýrslu sem kynnt var í september 2017 kemur fram að þeir nemendur sem tóku þátt í skuggakosningum voru líklegri til að kjósa í alþingiskosningum en þeir sem ekki tóku þátt í skuggakosningum.