Samtals hafa verið staðfest 76 dauðsföll vegna eldanna í Kaliforníu og er um 1.200 manns saknað, samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC.
Vonir standa til þess að tala þeirra sem saknað er muni lækka, en vegna þess hve eldarnir breiddust út hratt þá er ekki vitað hversu margir voru á svæðinu þegar aðstæður voru sem verstar.
Eyðileggingin á stórum svæðum er gífurleg. Sviðin jörð og ónýt hús. Þurr jarðvegurinn kynti undir mestu eldum sem sést hafa í Kaliforníu, í fimmtán ár, en ennþá loga eldar á stórum svæðum. Þurr jarðvegur, heitir vindar og erfiðar aðstæður til að fyrirbyggja elda hafa leitt til hættulegra aðstæðna víða.
Donald Trump Bandaríkjaforseti heimsótti svæðið og skoðaði aðstæður með ríkisstjóranum Jerry Brown, og arftaka hans í starfi, Gavin Newsom. Þeir eru báðir Demókratar og er Brown þekktur fyrir andstöðu sína við Trump.
A local (who didn’t want to be named) is waiting for President Trump with a message pic.twitter.com/nS83fIpmRM
— Dave Lee (@DaveLeeBBC) November 17, 2018
Þeir sögðust hafa rætt við Trump áður en hann kom í heimsókn, og sögðust ætla að vinna með yfirvöldum að því að tryggja að hjálparstarf gangi vel fyrir sig og endurbygging svæðanna sem fór verst út úr eldunum sömuleiðis.
„Nú er tími samstöðu,“ sagði Brown, og undir það tóku Trump og Newsom.
Kalifornía er fjölmennasta ríki Bandaríkjanna með 38 milljónir íbúa.