Mun fleiri konur en karlar voru án atvinnu á Íslandi í október síðastliðnum. Þá voru 4600 konur atvinnulausar en aðeins 1600 karlar, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Ekki hafa svo margar konur verið atvinnulausar í einum mánuði síðustu þrjú ár eða síðan í september árið 2015 eða um 4,6 prósent kvenna. Tekið er þó fram á vef Hagstofunnar að íslenskur vinnumarkaður sveiflist reglulega milli mánaða vegna árstíðabundinna þátta.
2,9 prósent atvinnuleysi í október
Í október var aðeins 2,9 prósent atvinnuleysi á Íslandi, 1,3 prósent karla og 4,6 prósent kvenna. Áætlað er að 204.700 manns á aldrinum 16 til 74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í október síðastliðnum en það jafngildir 81,2 atvinnuþátttöku. Í heildina voru 6000 manns án vinnu og í atvinnuleit í október, 4600 konur og 1400 karlar.
Atvinnulausir í október þetta árið mældust 1.400 færri en í sama mánuði árið 2017 þegar þeir voru 7.400 eða 3,7 prósent af vinnuaflinu. Samkvæmt árstíðaleiðréttingunni voru atvinnulausir 6.400 í október eða 3,1 prósent, sem er aukning um 1,3 prósentustig síðan í september.
Atvinnuleysi sveiflukennt
Atvinnuleysi er mjög sveiflukennt á milli mánaða en atvinnuleysi á Íslandi hefur nánast farið stöðugt lækkandi eftir að það náði hámarki árin eftir hrun. Atvinnuleysi kynjanna hefur fylgst nokkuð að frá árinu 2014. Þó getur oft verið talsverður munur á milli kynjanna á milli mánaða en í október á þessu ári var 3,5 prósenta munur á atvinnuleysi eftir kyni. Ef rýnt er í tölur Hagstofunnar kemur í ljós að ekki hefur verið svo mikill munur á milli kynjanna í rúm þrjú ár.