Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir að það sé á ábyrgð Icelandair að veita nægjanlega góðar upplýsingar um kaup félagsins á WOW air. Sé innherjaupplýsingum haldið eftir, líkt og heimild er til við ákveðnar kringumstæður, þá verði að tryggja að trúnaðar sé gætt og koma í veg fyrir að þær berist annað.
Þetta er á meðal þess sem hann segir í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut. Stiklu úr þættinum er hægt að sjá hér að neðan.
Tilkynnt var um kaup Icelandair á WOW air í byrjun nóvember. Við það hækkaði hlutabréfaverð í Icelandair um tugi prósenta á nokkrum klukkutímum. Miklar vangaveltur hafa verið um það á markaði hvort að innherjaupplýsingar um að kaupin væru fyrirhuguð hefðu lekið út áður en að tilkynnt var um þau auk þess sem upplýsingar sem veittar voru í tilkynningu til Kauphallar voru að mörgu leyti takmarkaðar og erfitt að átta sig til að mynda á þeim fyrirvörum sem settir voru fyrir kaupunum.
Páll sagði að það væri full ástæða til að skerpa á þessum atriðum og að mikilvægt væri að menn fari vel með þessar upplýsingar. Hins vegar verði að horfa á að það hafi verið margt í gangi hjá Icelandair í aðdraganda tilkynningarinnar sem snerti ekki WOW air. „Það er uppgjör, það er tilkynning um söluferli hótelanna svo koma flutningstölur og fleira. Við auðvitað beinum því til félagsins sjálfs að veita allar þær upplýsingar sem það getur veitt.“
Páll segir að það hafi aldrei komið til greina að stöðva viðskiptin með bréf í lengri tíma en gert var þann dag sem tilkynnt var um vænta yfirtöku. „Það er algjört prinsipp hjá okkur að stöðva viðskipti í eins stuttan tíma og hægt er. Það er einfaldlega svo mikil vernd í því fyrir þá sem eiga hlutabréf í skráðum félögum að vita af því að þeir geti ávallt selt sinn hlut. Þetta er svo mikilvægur hluti af réttindum hluthafa. Að okkar mati var engin forsenda fyrir því.“