Már Guðmundsson seðlabankastjóri vill ekki gangast við því að bankinn hafi gengið of hart fram gegn Samherja. Hann segir að þar sem málin hafi aldrei komist til dómstóla þýði það að Samherja-menn séu ekki sekir en Seðlabankinn sé heldur ekki sekur. Hann segir Samherja hafa rétt til að kæra sig og hafi enga skoðun á því.
Þetta kemur fram í frétt RÚV en Már var í ítarlegu viðtali við Kristján Kristjánsson í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Þann 8. nóvember síðastliðinn kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf. Í dómnum er staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 1. september 2016 um að Samherji hf. skuli greiða 15 milljónir króna í stjórnvaldssekt til ríkissjóðs vegna brota gegn reglum um gjaldeyrismál.
Forsætisráðherra óskaði eftir greinargerð
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sendi Gylfa Magnússyni formanni bankaráðs Seðlabanka Íslands þann 12. nóvember síðastliðinn bréf vegna umfjöllunar um dóm Hæstaréttar í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf. þar sem óskað er eftir greinargerð bankaráðs um málið.
„Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um það hvað lá að baki ákvörðun Seðlabanka Íslands um að endurupptaka málið sem tilkynnt var Samherja hf. 30 mars 2016. Þá óska ég einnig eftir útlistun á því hvort og þá með hvaða hætti Seðlabanki Íslands hyggist bregðast við dómnum og hvort dómsniðurstaðan kalli á úrbætur á stjórnsýslu bankans og þá hvaða,“ segir í bréfi forsætisráðherra.
Kannað að setja málið í sáttarferli
Már segir í viðtalinu á Sprengisandi að hann hafi strax í upphafi látið kanna þann möguleika hvort ekki væri hægt að setja málið í sáttarferli. „Það var kallað á hæstaréttarlögmann sem komst að þeirri niðurstöðu að ég mætti það ekki. Slíkt væri brot á lögum. Ég yrði að kæra ef grunur væri um meiriháttar brot,“ segir hann.
Seðlabankastjóri tekur það fram í viðtalinu að allt sem hann segði fæli ekki í sér neina fullyrðingu um sekt Samherja, enginn dómur hafi fallið og muni ekki gera. „Það er ekki bankans segja til um hvort einhver sé sekur eða ekki. Ef það er rökstuddur grunur um meiriháttar brot þá megum ekki bara kæra heldur eigum við að kæra.“
Málið kom ekki frá RÚV
Már segir það af og frá að málið hafi komið frá RÚV. Rannsóknin hafi verið í fullum gangi þegar Kastljós hafði samband og spurt hvort þetta gæti staðist. „Bankinn varð mjög órólegur yfir því að þetta gæti mögulega spillt fyrir rannsókn málsins. Þau fengu engin gögn frá okkur,“ segir Már. Hann hafi heldur ekkert vélað um umfangsmikla húsleit sem ráðist var í hjá Samherja á sínum tíma. „Þetta virkar mjög umfangsmikið en þegar menn telja að það sé nauðsynlegt að komast í öll gögn á einum tímapunkti þá verður það ekki gert nema í umfangsmikilli aðgerð,“ segir hann.
Már bendir á að Samherji hafi reynt að hnekkja þessari húsleit fyrir dómstólum en Seðlabankinn hafi unnið öll þau mál. Málið hafi síðan verið kært til sérstaks saksóknara sem hafi þá komist að því að ekki væri lagastoð fyrir því að kæra fyrirtæki í sakamáli fyrir gjaldeyrisbrot. Hann segir að þetta hafi verið í lögum síðan 2007 en ekki uppgötvast fyrr en árið 2013 og hafi eyðilagt fjölda mála hjá FME. „Sérstakur saksóknari hafði áður tekið við Ursusar-málinu og þar var ekki gerð þessi athugasemd.“
Saksóknari hafi því bent Seðlabankanum á að möguleikarnir væru annað hvort stjórnvaldssekt eða heimafæra brot upp á einstaklinga. Málið hafi því ekki verið gert afturreka. „Á þeim tímapunkti er þetta enn meiriháttar mál og það er kært aftur á hendur einstaklingum,“ segir Már.
Saksóknari hafi verið með málið hjá sér í tvö ár og framkvæmt margvíslegar rannsóknir en síðan sent það aftur til baka með þeim skilaboðum að það hefði vantað undirskrift ráðherra á reglugerð en líka að það væri erfitt að heimfæra þessi tilteknu brot upp á einstaklinga.
Hann segir að þegar ljóst var að þessa undirskrift vantaði hafi Seðlabankinn fellt niður allt sem bankinn taldi sig geta fellt niður án þess Samherji fengi einhverja sérstaka meðferð. Það sé alvarleg ásökun að saka bankann um að hafa af ásetningi borið Samherja röngum sökum.