Píratar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin fordæmi viðbrögð stjórnvalda á Spáni við atkvæðagreiðslu sem fór fram í Katalóníu 1. október á síðasta ári um sjálfstæði héraðsins, þar á meðal handtökur á katalónskum stjórnmálamönnum.
Fyrsti flutningsmaður er Álfheiður Eymarsdóttir, varaþingmaður Pírata, en með henni eru fimm þingmenn úr sama flokki.
Þann 6. september árið 2017 samþykkti héraðsþing Katalóníu löggjöf sem heimilaði atkvæðagreiðslu um sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóníu gagnvart Spáni. Stjórnlagadómstóll Spánar ógilti aftur á móti löggjöfina daginn eftir.
Niðurstaðan skýr
Atkvæðagreiðslan fór engu að síður fram þann 1. október árið 2017, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir spænskra stjórnvalda. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að þær tilraunir hafi oft verið ofbeldisfullar og ætlað að koma í veg fyrir framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.
Niðurstaðan var þó skýr því að 92 prósent þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já við spurningunni sem lögð var fyrir kjósendur en spurt var hvort þeir vildu að Katalónía yrði sjálfstætt ríki með lýðveldisstjórnarfari.
Stjórnlagadómstóll Spánar ógilti sjálfstæðisyfirlýsingu héraðsstjórnarinnar mánuði seinna, eða þann 8. nóvember, á grundvelli þess að hún hefði brotið gegn stjórnarskrá landsins og væri því marklaus.
Fólk fært í fangelsi eða gert útlægt
Í greinargerðinni kemur enn fremur fram að frá því að atkvæðagreiðslan fór fram hafi verið gefnar út handtökuskipanir á hendur fjölmörgum stjórnmálamönnum í Katalóníu og hafi að minnsta kosti níu þeirra setið í fangelsi á Spáni mánuðum saman án þess að þeir hafi verið ákærðir. Meðal þeirra sé fyrrverandi forseti katalónska þingsins. Enn fleiri séu í útlegð og eigi á hættu að verða handteknir ef þeir snúa til síns heima.
Tekið er fram í tilllögunni að þingsályktunin sé ekki stuðningsyfirlýsing við málstað sjálfstæðissinna í Katalóníu, heldur alvarleg áminning til spænskra stjórnvalda um að tryggja rétt manna til að bjóða sig fram til starfa í þágu kjósenda án þess að eiga á hættu að verða sviptir frelsi sínu.
Ríkt hérað
Katalónía er eitt ríkasta hérað Spánar og hefur það, ásamt Baskalandi, sterkari sjálfstjórn en nokkuð annað hérað á Spáni og jafnvel þótt víðar væri leitað. Héraðið hefur yfirumsjón með mennta-, heilbrigiðs- og velferðarmálum ásamt því að það hefur eigin lögreglu, eigið þing, héraðsstjórn og dómstóla.
Héraðsstjórn Katalóníu hefur áskilið sér rétt til að krefjast sjálfsákvörðunarréttar og sjálfstæðis en alþjóðalög viðurkenna einungis þann rétt fyrir svæði sem lúta stjórn nýlenduvalds, hafa orðið fyrir innrás eða orðið fyrir alvarlegum brotum á mannréttindum vegna aðgerða stjórnvalda. Margir telja þó að það eigi við um Katalóníu.
Katalónía endurheimti réttindi eftir Franco
Kjarninn hefur fjallað um málið en í fréttaskýringu frá því 1. október á síðasta ári kemur fram að margir Katalónar séu ósáttir með það hvernig ríkisstjórnin í Madríd kemur fram við héraðið. Stjórnarskrárdómstóll Spánar dró árið 2010 til baka ákvöruðun um að skilgreina Katalóníu sem þjóð frekar en hérað og veita katalónska tungumálinu forgangsstöðu og fór það illa í Katalóna.
Þá jókst óánægja við Madríd í kjölfar efnahagskreppunnar á Spáni árið 2009 vegna þess að bilið milli þess sem Katalónar greiða í skatta og þess sem fjárfest er í héraðinu af ríkinu nemur um 8 til 10 milljarða evra á ári. Tilfinningin að ríkisstjórnin í Madríd steli frá Katalónum er sterk og algeng en meðaltekjur á íbúa eru umtalsvert hærri í Katalóníu en í landinu sem heild – eða um 19 prósent – þó að þessi munur hafi minnkað úr um 50 prósent í byrjun sjöunda áratugarins.
Réttindi Katalóna til sjálfsstjórnar voru mjög takmörkuð í stjórnartíð einræðisherrans Francisco Franco 1936 til 1975. Þegar lýðræði komst á í landinu eftir dauða Franco endurheimti Katalónía mörg af sérréttindum sínum og var héraðinu veitt umtalsverð sjálfsstjórn.