Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, sendi í gær bréf til þeirra fjárfesta sem tóku þátt í skuldaútboði WOW air í september síðastliðnum. Í bréfinu þrýstir hann á fjárfestanna að liðka fyrir kaupum Icelandair Group á öllu hlutafé félagsins. Til þess að Icelandair Group geti keypt félagið og tekið eignir þess og skuldir inn á efnahagsreikning samstæðu sinnar þurfa kröfuhafar WOW air og leigusalar þess að gefa eftir tilteknar kröfur og eftir atvikum liðka fyrir breyttum skilmálum í samningum sínum við félagið. Að öðrum kosti er afar ósennilegt að hluthafar Icelandair Group muni á hluthafafundi sem boðaður hefur verið að morgni næstkomandi föstudags, samþykkja yfirtöku á félaginu. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Fjórar ástæður fyrir verri stöðu félagsins
Í bréfinu til fjárfestana fór Skúli yfir þá stöðu sem félagið er nú í en ítrekaði jafnframt að með breytingum á skilmálum hinna nýútgefnu skuldabréfa væru það ekki aðeins viðtakendur bréfsins sem þyrftu að gefa eftir kröfur sínar, heldur einnig hann sjálfur. Í bréfinu tilkynnir Skúli fjárfestunum að hann hafi sjálfur keypt skuldabréf í útgáfunni fyrir 5,5 milljónir evra eða um 770 milljónir króna en það eru um 11 prósent af þeim 50 milljónum evra sem söfnuðust í útboðinu. Það gefur til kynna að áhuginn á þátttöku á meðal annarra fjárfesta hafi verið enn minni en áður hafði verið upplýst um.
Í bréfinu útlistar Skúli þá þröngu stöðu sem félagið er í og undirstrikar um leið að rekstrarhorfur þess hafi versnað til muna frá því að útboðið fór fram. Í umfjöllun Morgunblaðsins segir að í bréfinu nefnir Skúli sérstaklega fjórar ástæður fyrir verri stöðu nú en í september. Í fyrsta lagi hafi neikvæð umræða um fjárhagsstöðu félagsins, meðan á skuldabréfaútboðinu stóð og í kjölfar þess, haft neikvæðari áhrif á sölu félagsins og skuldastöðu en gert hafi verið ráð fyrir og að fjórði ársfjórðungur komi verr út en áætlanir voru byggðar á. Í öðru lagi hafi Primera air orðið gjaldþrota í október sem hafi leitt aukna neikvæðni yfir markaðinn. Þá hafi félagið verið að því komið að ganga frá sölu og endurleigu á flugvélum sem gengið hafi til baka en það bakslag hafi haft tæplega 3,2 milljarða króna neikvæð áhrif á lausafjárstöðu félagsins. Í fjórða lagi hafi olíuverð hækkað gríðarlega á vikunum og mánuðunum eftir útboðið sem hafi einnig sett þrýsting á fjárhagsstöðu félagsins.
Skúli segir í bréfinu að þessar aðstæður hafi orðið þess valdandi að nauðsynlegt hafi reynst að leita frekari leiða til að tryggja fjármögnun félagsins. „Það að skrifa þetta bréf er ekki gert af léttúð af neinu tagi og ég get fullvissað ykkur um að við erum að taka hvert það skref sem mögulegt er til að tryggja áframhaldandi rekstur WOW air,“ segir Skúli í bréfinu. Aldrei fyrr hefur Skúli birt jafn hispurslaus lýsingu á raunverulegri stöðu félagsins á opinberum vettvangi.
Mörg mál enn óleyst
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands í gærmorgun ítrekaði Icelandair Group að enn hefði ekki tekist að uppfylla alla fyrirvara sem settir voru við kaup félagsins á öllu hlutafé WOW air en samningur þar að lútandi var undirritaður 5. nóvember síðastliðinn. Aflétta verður öllum fyrirvörum í tengslum við viðskiptin fyrir hluthafafund sem boðaður hefur verið í Icelandair Group á föstudagsmorgunn, 30. Nóvember. Kaup Icelandair voru m.a. gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Icelandair Group, samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.
Í umfjöllun um málið í Markaðinum í dag er greint frá því að mikil óvissa sé um þau áform að greiða eigendum skuldabréfa WOW air höfulstól bréfa sinna á gjalddaga, eftir þrjú ár, auk þóknunar sem nemur 20 prósentum af höfuðstólnum gegn því að kaupréttir þeirra í félaginu verði felldir niður. Í bréfi WOW air til skuldabréfaeigendanna, dagsett 9. nóvember, kom fram að það væri skilyrði þess að yfirtaka Icelandair Group á félaginu nái fram að ganga að kaupréttirnir falli niður.
Aðrir fyrirvarar sem enn hefur ekki tekist að greiða úr tengjast samningaviðræðum við kröfuhafa WOW air og leigusala félagsins. Það eru átta félög, m.a. á Írlandi, Bermúda og í Delaware í Bandaríkjunum, sem leigja WOW air-vélarnar 20 sem félagið hefur nú í förum milli Íslands og áfangastaða í Evrópu og Bandaríkjunum.
Þannig miða samningaviðræður að því að kröfuhafar, leigusalar, og eftir atvikum birgjar WOW air, sem eiga kröfur á hendur félaginu, gefi eftir hluta skulda þess eða geri þær skilmálabreytingar sem greitt geta fyrir viðskiptunum. Þannig mun ekki koma til greina af hálfu Icelandair Group að taka við skuldbindingum WOW air í óbreyttri mynd. Ljóst er að skuldsetning félagsins, sem um mitt ár nam tugum milljarða króna, mun hafa veruleg áhrif á efnahagsreikning samstæðu Icelandair Group, verði af yfirtökunni. Enn sem komið er munu kröfuhafar og leigusalar WOW air ekki hafa gefið skýrt svar um hvort orðið verði við beiðni um þær breytingar sem liggja til grundvallar fyrrnefndum fyrirvörum í kaupum Icelandair Group á félaginu.
Mögulegar viðræður við aðra fjárfesta
Skúli Mogensen sendi tölvupóst til starfsmanna í fyrradag þar sem hann fullyrti að WOW air ætti í viðræðum við aðra fjárfesta en Icelandair um mögulega aðkomu að félaginu. Það er í beinni andstöðu við þær upplýsingar sem settar voru fram í tilkynningu Icelandair til Kauphallar Íslands 5. nóvember síðastliðinn. Samkvæmt umfjöllun Markaðarins gæti þessi ummæli Skúla dregið dilk á eftir sér þar sem að til þess að Samkeppniseftirlitið fallist á að heimila kaup Icelandair á Wow þurfa félögin að sýna fram á að engir raunhæfir möguleikar hafi verið á annari sölu WOW air en til Icelandair Group. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gerði eftirlitið athugasemdir við málatilbúnað félaganna að þessu leiti á fundum fulltrúa flugfélaganna með Samkeppniseftirlitinu í lok síðustu viku, en ein athugasemdin sneri að því að Skúli hefði aldrei sett WOW air í formlegt söluferli.
Fækka í flotanum
WOW air tilkynnti í gær að félagið hyggðist fækka í flotanum sínum um fjórar vélar í samráði við leigusala sínu. WOW air hefur haft tuttugu vélar á leigu, þar af sextán samkvæmt rekstrarleigusamningi og fjórar samkvæmt kaupleigusamningi. Fyrirtækið Air Lease Corporation á stærstan hluta vélanna, eða alls sjö vélar, samkvæmt fjárfestakynningu WOW air. Í tilkynningu í gær kom fram að fækkun vélana væri aðgerð til að „auka hagkvæmni, draga úr árstíðasveiflu og hámarka arðsemi“.
Ekki hefur ennfengist niðurstaða um hvort að krafa Icelandair um að forgangsréttarákvæði í samningum félagsins við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) muni ekki gilda hjá lággjaldaflugfélaginu, í kjölfar kaupanna nái þau fram að ganga segir í umfjöllun Markaðarins. Félagsmenn í FÍA sem starfa hjá Icelandair hafa forgang í flugi á flugvélum í eigu félagsins og dótturfélaga. Með kaupum Icelandair á WOW air yrðu því flugmenn síðarnefnda félagsins, að öðru óbreyttu, á sama kjarasamningi og flugmenn Icelandair. Því gæti launakostnaður lággjaldaflugfélagsins hækka umtalsvert.
Skoða sölu lendingarstæða
Í umfjöllun Markaðarins í dag er greint frá því að WOW air leitar um þessar mundir allra leiða til þess að bæta lausafjárstöðu sína og kanna í því sambandi ýmsa kosti, m.a. skoðar félagið að selja lendingarstæði sín á Gatwick flugvell. Sú stæði eru með þeim verðmætustu í eigu WOW air en ekki liggur þó fyrir hvað félagið getur fengið fyrir þau. Samkvæmt umfjöllun Markaðarins óttast leigusalar WOW air að samruni flugfélagsins og Icelandair gangi ekki eftir og að WOW air takist ekki að standa í skilum um næstu mánaðamót. Skúli tiltók sérstaklega í bréfinu til skuldabréfaeigenda að umræddir leigusalar fylgdust náið með stöðu félagsins og krefðust nú strangari greiðsluskilmála en áður með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á sjóðsstreymi félagsins. Í bréfinu greindi Skúli einnig frá því að flugfélagið hefði verið nálægt því að ganga frá samningi um sölu og endurleigu á flugvélum sem hefði tryggt félaginu innspýtingu upp á 25 milljónir dala, jafnvirði um þriggja milljarða króna en lokum hefði verið hætt við þau áform.