Drög að áreiðanleikakönnun á rekstri WOW lágu fyrir í gær en drögin sýndu að rekstrarstaða flugfélagsins hefur þrengst verulega frá því að samningur um kaup Icelandair Group á öllu hlutafé félagsins var undirritaður þann 5. nóvember síðastliðinn. Dregið hefur úr farmiðabókunum sem aftur hefur áhrif á lausafjárstöðu félagsins. Fjármálastjóri WOW air tilkynnti sérstaklega í gær að starfsfólki félagsins yrðu greidd laun um mánaðamótin. Á sama tíma hefur reynst erfitt að fá kröfuhafa félagsins til þess að gefa eftir í þeirri viðleitni að greiða fyrir sölunni en nú þrýstir Icelandair á WOW air að standi undir talsvert minni hluta af höfuðstól skuldabréfaeiganda WOW air.
Hluthafafundur Icelandair Group verður haldinn í fyrramálið en þar mun stjórn félagsins annaðhvort leggja til að tillaga um kaup félagsins á öllu hlutafé WOW air verði samþykkt eða henni synjað. Endanleg afstaða stjórnarinnar mun aftur á móti ráðast á stjórnarfundi í kvöld.
Drög að áreiðanleikakönnun
Fjallað var um í fjölmiðlum í gær hvernig Skúli Mogenssen, forstjóri og eigandi WOW air, hefur þrýst á kröfuhafa félagsins að liðka fyrir kaupum Icelandair en samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins í dag þá hefur reynst erfitt að fá kröfuhafa félagsins til þess að gefa eftir í þeirri viðleitni að greiða fyrir sölunni. Mun það m.a. standa í þeim að hlutdeild seljanda félagsins sé tryggð með afhendingu 1,8 prósent hlutar í Icelandair Group, gangi salan eftir.
Niðurstöður áreiðanleikakönnunarinnar benda hins vegar ótvírætt til þess að hlutdeild seljanda í öðru gagngjaldi, sem að hámarki hefði getað orðið 5,4 prósent verði í raun 0 prósent við frágang viðskiptanna. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Fjárfestar taki á sig tugprósenta afskriftir
Skuldabréfaeigendur WOW air, sem fjárfestu fyrir samtals 60 milljónir evra, jafnvirði 8,5 milljarða króna, í skuldabréfaútboði flugfélagsins sem lauk um miðjan september, gætu þurft að samþykkja tugprósenta afskriftir af höfuðstól sínum eigi fyrirhuguð kaup Icelandair Group á WOW air að ná fram að ganga. Frá þessu er greint í Markaðinum í dag.
Samkvæmt heimildum Markaðarins þrýstir Icelandair nú mjög á að WOW air taki á sig talsvert minni hluta skuldbindingarinnar, eða mögulega í kringum 70 prósent af höfuðstól bréfanna í stað 90 prósenteins en áður hafði verið gert ráð fyrir.
Icelandair greiði lægra en 90 prósent
Í bréfi WOW air til skuldabréfaeigenda félagsins, dagsettu 9. nóvember, kom fram að það væri skilyrði fyrir yfirtöku Icelandair að kaupréttur þeirra að hlutafé í félaginu verði felldir niður. Þess í stað myndi WOW air bjóðast til að greiða skuldabréfin á lokagjalddaga haustið 2021 með tuttugu prósenta þóknun ofan á höfuðstólinn.
Þau áform fólu þá í sér að Icelandair myndi standa undir 90 prósentum af höfuðstól skuldanna og Skúli Mogensen, forstjóri og eini hluthafi WOW air, greiði það sem upp á vantar með þeim hlutabréfum sem hann kann að eignast í sameinuðu félagi. Nú mun Icelandair hins vegar hafa sett fram það skilyrði að greiðsla félagsins til skuldabréfaeigenda WOW air verði nokkuð lægri en 90 prósent og þá er veruleg óvissa um hvort Skúli geti bætt kröfuhöfum félagsins upp mismuninn. Niðurstaða áreiðanleikakönnunar mun leiða í ljós hve stóran hlut Skúli mun fá afhentan í sameinuðu félagi en hann getur verið á bilinu 1,8 til 6,6 prósent. Þetta kemur fram í umfjöllun Markaðarins.
Íslenskir fjárfestar voru með 37 prósent af heildareftirspurninni í skuldabréfaútgáfu WOW air í september eða sem nemur um 22 milljónum evra. Tveir sjóðir í stýringu GAMMA Capital Management fjárfestu til dæmis fyrir samanlagt tvær milljónir evra. Bandarískir fjárfestar keyptu um fjórðunginn af útgáfunni og fjárfestar frá Norðurlöndunum 19 prósent á meðan afgangurinn – um 19 prósent – var seldur til annarra fjárfesta í Evrópu.
Þurfi góð rök fyrir hlutafjáraukningu ef ekki verður af kaupum á WOW air.
Sveinn Þórarinsson greinandi hjá Hagfræðideild Íslands segir í samtali við Markaðinn að það kæmi sér ekki á óvart ef hluthafafundi Icelandair, sem á að eiga sér stað á morgun, yrði frestað en hann segir hluthafar hafi litlar upplýsingar um stöðu WOW air.
Tvær tillögur liggja fyrir hluthafafundi Icelandair Group. Annars vegar hlutafjáraukning vegna samruna við WOW air og hins vegar óskilgreind hlutafjáraukning. Sveinn segir að hlutafjáraukning gæti verið samþykkt óháð samruna Icelandair við WOW air til að bæta stöðuna gagnvart skuldabréfaeigendum félagsins. En hann segir þá aukningu þó duga skammt en hún myndi að m.a. sýna skuldabréfaeigendum að hluthafar standa við bakið á félaginu. Icelandair Group hefur fengið tímabundnar undanþágur gagnvart lánaskilmálum. „En stjórnendur Icelandair þurfa að færa sannfærandi rök fyrir hlutafjáraukningu enda er verið að þynna út hluthafa sem ekki taka þátt í henni,“ segir Sveinn jafnframt.
Sveinn segir að hlutafjáraukningu þurfi ekki að svo stöddu en hann nefnir að fyrirtækið muni tapa á bilinu 50 til 60 milljónum dala í ár og ef farmiðaverð hækkar ekki þá verði næsta ár einnig erfitt.