Ingu Sæland, Oddný Harðardóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna hljóðupptöku þar sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins heyrast tala um þær.
Í henni kemur fram að ummæli þau sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla 20. nóvember á Klaustri lýsi skammarlegum viðhorfum til kvenna og líti þær þau verulega alvarlegum augum.
„Það er algjörlega ólíðandi að karlar í valdastöðum sýni slíka kvenfyrirlitningu og tjái sig á jafn niðrandi hátt um konur og samkynhneigða. Þá skiptir einu hvort um er að ræða pólitíska andstæðinga eða samherja,“ segir í yfirlýsingunni.
Setur samstarf og trúnað í uppnám
Þær segja að ummæli þessi opinberi viðkomandi þingmenn og dæmi sig sjálf. Hegðun þeirra sé ekki til þess fallin að auka virðingu almennings á Alþingi eða á stjórnmálamönnum og setji samstarf og trúnað í uppnám.
„Við fordæmum ummælin og munum óska eftir því að málið verði tekið upp í forsætisnefnd,“ segja þær.
Að lokum minna þær á eftirfarandi siðareglur sem þingmenn hafa allir undirgengist.