Níu manna hópur þingmanna hefur sent erindi til forsætisnefndar þar sem óskað er eftir því að forsætisnefnd taki upp mál er varðar niðrandi ummæli og háttsemi þingmannahóps sem fjölmiðlar hafa verið að fjalla um síðastliðinn sólarhring. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingmannahópnum.
Þess er óskað að forsætisnefnd vísi þessu erindi til siðanefndar þar sem ummælin og háttsemin stangast á við 5. og 7. reglur siðareglna þingmanna og óski eftir að siðanefnd fjalli um málið og skili forsætisnefnd niðurstöðum hið fyrsta.
Þetta yrði þá í fyrsta sinn sem siðanefnd Alþingis yrði kölluð til.
Auglýsing
Þingmennirnir eru Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þorsteinn Víglundsson.