Mánudagskvöldið 19. nóvember síðastliðinn var haldið hóf í Kaupmannahöfn. Tilefnið var útkoma nýrrar bókar, Rødder. Tíu mínútum eftir að hófinu lauk lá höfundur bókarinnar örendur við bíl sinn. Skotinn í höfuðið.
Nedim Yasar, sem skotinn var til bana þetta mánudagskvöld, var ekki þekktur rithöfundur. Rødder – en gangsters udvej (Rætur – útleið glæpamanns) var fyrsta og jafnframt eina bók hans. Hann var hins vegar þekktur í undirheimum Kaupmannahafnar en bókin fjallar um líf hans þar og þá ákvörðun að snúa baki við undirheimalífinu.
Nedim Yaser fæddist í Tyrklandi árið 1987 en fluttist með foreldrum sínum til Danmerkur árið 1991. Fjölskyldan settist að í Ballerup, skammt norðan við Kaupmannahöfn. Íbúðin var í blokk og nær allir íbúarnir þar, og einnig í tveimur öðrum blokkum í næsta nágrenni, tyrkneskir innflytjendur. Nedim umgekkst nær eingöngu tyrkneska stráka sem bjuggu í blokkunum þremur. Þeir voru, að sögn Nedims, uppivöðslusamir og lentu fljótt upp á kant við kennara og skólayfirvöld. Mörgum þessara stráka var vísað úr skóla, þar á meðal Nedim, þá var hann fimmtán ára. Hann hafði skvett kakói yfir einn kennarann. Eitt helsta athvarf strákanna eftir að skóla lauk á daginn var að fara í unglingaklúbbinn í hverfinu. Nedim segir frá því í bók sinni að eftir að hann var rekinn úr skólanum hékk hann heima eða var úti með jafnöldrum, sem líka hafði verið vísað úr skóla, þangað til unglingaklúbburinn var opnaður síðdegis. Einn daginn þegar þeir félagar komu að dyrunum á klúbbnum var þeim sagt að þeir fengju ekki að koma inn, hvorki í dag né framvegis. Ástæðan var sú að aðrir krakkar væru hræddir við þá tyrknesku sem voru yfirgangssamir og stríddu þeim yngri.
Voru annars flokks borgarar
Í útvarpsviðtali mörgum árum seinna sagði Nedim að litið hefði verið niður á Tyrkina í hverfinu, þeir hefðu verið kallaðir ,,fucking perkere“ og sagt að þeir ættu að hypja sig heim til Tyrklands. ,,Mamma þorði ekki ein út í búð, vildi alltaf að ég færi með sér.“ En við Tyrkirnir héldum saman og hjálpuðum hver öðrum. Þetta var ekki skemmtilegt líf og dagarnir hver öðrum líkir. Við skynjuðum að við vorum annars flokks borgarar í Danmörku.“
Sogaðist inn í vafasaman félagsskap
Dag nokkurn, Nedim var ekki orðinn sextán ára, gáfu nokkrir eldri piltar sig á tal við Nedim og félaga hans. Strákarnir, sem alltaf voru skítblankir kunnu vel að meta þessa athygli þeirra eldri sem virtust hafa næga peninga, áttu meira að segja bíla, svarta kagga eins og sáust í amerískum gangsterkvikmyndum. ,,Við vorum hissa á þessum vingjarnlegheitum en veltum því svo sem ekki mikið fyrir okkur. Einn daginn kom hins vegar að því að þeir eldri gerðu strákunum grein fyrir því að þeir skulduðu þeim greiða. ,, Við þorðum ekki að mótmæla, vorum hræddir um að missa félagsskapinn og yrði hafnað eins og oft hafði gerst. Með þessum hætti soguðumst við inn í afbrotaheiminn.“
Los Guerreros
Nedim eltist og þroskaðist. Skyndilega hafði hann peninga milli handanna og ók um á svörtum kagga. Peningana þénaði hann á hasssölu, mikla peninga. En hann sá að foringjarnir, þeir sem stjórnuðu sölunni þénuðu margfalt meira. Átján ára hlaut hann tveggja ára fangelsisdóm fyrir líkamsárás. Skömmu eftir að hann var látinn laus bauðst honum að verða félagi í glæpagenginu Bandidos. En Nedim dreymdi um að verða foringi og í stað þess að ganga til liðs við Bandidos varð hann foringi Los Guerreros – Stríðsmannanna sem var eins konar stuðningshópur Bandidos. Nú var hann kominn í hóp þeirra sem lokkuðu til sín unga drengi, með nákvæmlega sömu aðferðum og notaðar höfðu verið á hann sjálfan. Yngri bróðir Nedim varð líka félagi í Los Guerreros. Nedim sagði að móðir sín hefði verið mjög ósátt við þá bræður ,,en okkur var slétt sama um það og að lokum hætti hún alveg að skipta sér af okkur.“
Sneri við blaðinu
Vorið 2012, sat Nedim, þá orðinn 25 ára, í fangelsi i Køge. Dag einn sá hann í sjónvarpinu sagt frá sérstöku verkefni á vegum danskra stjórnvalda. Verkefnið var ætlað þeim sem vildu segja skilið við heim glæpa og afbrota. ,,Ég hafði oft velt því fyrir mér að segja skilið við glæpaheiminn og þarna sá ég skyndilega möguleikann“ sagði Nedim í viðtali við danskt dagblað. Þegar afplánuninni lauk skráði hann sig í Exit programmet, eins og verkefnið nefnist. Það var ekki auðvelt, gömlu félagarnir vildu fá hann aftur í félagsskapinn og hótuðu honum ,, ég svaf með hníf undir koddanum mánuðum saman“.
Exit- verkefnið er sérsniðið fyrir hvern og einn og áhugi Nedim beindist að kennslu og því að starfa með vandræðaunglingum, eins og hann orðaði það sjálfur. Hann þurfti hinsvegar að ljúka grunnskólanámi áður en lengra yrði haldið. Eftir að hafa lokið grunnskólaprófinu settist hann í undirbúningsdeild kennaraskólans Campus Carlsberg í Kaupmannahöfn og hóf síðan kennaranám við sama skóla. Meðfram náminu var Nedim þáttastjórnandi hjá útvarpsstöðinni Radio24syv, sá ásamt tveimur öðrum um þáttinn Politiradio. Við þessa þáttagerð naut Nedim þekkingar sinnar á undirheimunum og því sem þar fer fram.
Bókin
Marie Louise Toksvig, samstarfskona Nedim hjá Radio24syv hvatti hann til að skrifa bók um líf sitt. Marie Louise hefur áratuga reynslu í blaðamennsku og hefur skrifað nokkrar bækur, úr varð að hún skrifaði bókina sem ber heitið Rødder – en gangsters udvej. Í bókinni, sem kom út þriðjudaginn 20. nóvember, segir Nedim frá æsku sinni og uppvexti, hvernig hann dróst inn í heim glæpa og afbrota og hvernig honum tókst að finna leiðina til baka til samfélagsins, eins og hann komst að orði. Í bókinni nafngreinir hann hvorki einstaklinga né samtök en segir hinsvegar ítarlega frá ,,vinnuaðferðum“ glæpagengjanna eins og hann kynntist þeim.
Bjóst við hinu versta
Að sögn Marie Louise Toksvig vildi Nedim hvorki fara huldu höfði né njóta lögregluverndar. Í bókinni kemur fram að foringjar danskra glæpagengja líti nánast á það sem dauðasök að yfirgefa félagsskapinn. Marie Louise Toksvig sagði í viðtali við dagblaðið Berlingske að Nedim hefði uppá síðkastið oft talað um að ,,þeir“ kæmu á eftir sér og í viðtali við Ekstra Blaðið vegna útkomu bókarinnar sagðist hann vita að ekki væru allir fyrrverandi félagar sínir hrifnir af því að hann segði frá aðferðum þeirra. Í síðustu viku sýndi DR, danska sjónvarpið, heimildaþátt um Nedim Yasar. Þátturinn var að miklu leyti byggður á viðtali fréttamanns DR við Nedim en viðtalið var tekið fjórum dögum áður en hann dó. Þar sagði hann frá því að fyrir rúmu ári hefði maður vopnaður hnífi bankað á útihurðina en lagt á flótta þegar Nedim snerist til varnar.
Maðurinn sem skaut Nedim Yasar var einn að verki, að sögn sjónarvotta. Eftir að hafa hleypt af tveimur skotum sem bæði hæfðu Nedim hvarf maðurinn út í myrkrið og hefur ekki náðst.