Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins, segist á samfélagsmiðlinum Facebook ekki skilja hvert íslenskt samfélag sé komið. Hún þakkar jafnan fyrir þær fjölmörgu stuðningskveðjur sem þeim hjónum hafi borist. Stundin greinir frá í dag.
Í frétt Stundarinnar kemur fram að vinkona Önnu Sigurlaugar á Facebook fari fögrum orðum um Sigmund og hvetji þau hjónin til dáða í opnum skilaboðum sem hún birtir á vegg Önnu Sigurlaugar.
„Hann er best stjórnmálamaður sem við höfum átt í seinni tíð. En þetta er ekkert annað en öfund og gaman þætti mér að vita hver eða hverjir hafa sent þennan skúnk með símann. Miðflokknum hefur gengið of vel að auka fylgi sitt og það ætla þeir að eyðileggja,“ skrifar vinkonan.
Í fréttinni kemur enn fremur fram að nokkrir taki undir þessi orð en Anna Sigurlaug svarar þeim. „Hjartans þakkir til ykkar allra. Stuðningur ykkar er ómetanlegur. Við erum nú búin að taka nokkra slagina síðustu árin en nú er ég kjaftstopp.“
Anna Sigurlaug telur að íslenskt samfélag sé komið á villigötur. „Hatrið og þörfin fyrir að smána aðra til upphefja sjálfan sig,“ skrifar hún. „Ég ætla ekki að segja ykkur hvað hefur gengið á í partýum meðal stjórnmálamanna síðustu árin en það kannski segir allt að við SDG höfum gengið út. Þakka ykkur enn og aftur. Ég stend stolt með Sigmundi mínum enda veit ég hvaða mann hefur að geyma og veit hver líðan hans er núna.“