Kvennahreyfing Öryrkjabandalags Íslands mótmælir því að á Alþingi sitji fólk sem haldið sé botnlausri kvenfyrirlitningu og taki ákvarðanir sem hafa bein áhrif á líf fólks. Alþingismenn hafi núna við afgreiðslu fjárlaga gullið tækifæri til að sýna í verki að þeir líti ekki á fatlað fólk sem skynlausar skepnur og geti tryggt öryrkjum mannsæmandi lífskjör.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Kvennahreyfingu ÖBÍ.
Þeim þykir miður að hafa fengið staðfestingu á þeim svívirðilegum fordómum í garð fatlaðs fólks sem ríki meðal margra alþingismanna.
„Fordómarnir koma ekki á óvart, því það er löngu ljóst að stjórnvöld líta ekki á öryrkja sem manneskjur. Nægir þar að nefna að örorkulífeyristekjur duga ekki til framfærslu. Hvorki löggjafarvaldið né dómsvaldið hafa séð ástæðu til að framfylgja þeim mannréttindasáttmálum sem íslenska ríkið er aðili að þegar kemur að ákvörðunum er varða okkar líf,“ segir í yfirlýsingunni.
Freyja Haraldsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður Bjartrar framtíðar og þekkt baráttukona fyrir auknum mannréttindum fatlaðra, sagði í stöðuuppfærslu á Facebook að niðrandi og meiðandi ummæli þingmanna á drykkjufundi í þarsíðustu viku, um hana og fjölmarga aðra nafgreinda einstaklinga, væru kerfisbundið hatur. „Það beinist harðast að konum. Hinsegin fólki. Fötluðu fólki. Karlmönnum sem einhvernveginn passa ekki inn í ríkjandi hugmyndir um (skaðlega) karlmennsku. Það er hvorki tilviljun né einsdæmi að akkúrat þessir hópar séu viðfang orðaníðs fólks með mikil forréttindi. Það er alltumlykjandi - alltaf.“
Á upptökum af drykkjufundi þingmannanna, sem tilheyra Miðflokknum og Flokki fólksins, heyrast þeir gera grín að Freyju, sem þjáist af sjaldgæfum beinasjúkdómi. Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, kallaði hana „Freyju eyju“ og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, gerði grín af því að tveir hinna mannanna við borðið hefðu sérstakan áhuga á Freyju og nafngreindri þingkonu Samfylkingarinnar. Einhver úr hópnum hermdi í kjölfarið eftir sel.
Freyja sagði í stöðuuppfærslu sinni að fyrstu viðbrögð hennar við hatursorðræðu þingmannanna hefði verið að verja hvorki krafti né orðum í hana og halda áfram með vinnudaginn sinn. „En ég hélt auðvitað ekkert áfram með daginn minn að neinu ráði - þetta hefur tekið sinn toll líkt og allt ofbeldi gerir.“
Hún skrifaði grein á Kjarnann sem birtist síðasta sunnudagskvöld þar sem hún greinir frá samskiptum sínum við Sigmund Davíð en hann hringdi í hana fyrr um daginn. „Ég frábið mér frekari símtöl þar sem ófatlaður karlmaður í valdastöðu talar niður til mín og reynir að útskýra fyrir mér hvað eru fötlunarfordómar og hvað ekki. Eina eðlilega símtalið í stöðunni væri að biðjast einlæglega afsökunar, án nokkurra útskýringa eða málalenginga, og segjast í ljósi gjörða sinna ætla að axla ábyrgð á ofbeldinu sem við vorum beittar og segja af sér,“ sagði hún í greininni.