Jodie Foster mun leikstýra, framleiða og leika í bandarískri endurgerð íslensku kvikmyndarinnar Kona fer í stríð, sem hlotið hefur alþjóðlegar viðurkenningar en Benedikt Erlingsson leikstýrði myndinni og Halldóra Geirharðsdóttir lék aðalhlutverkið.
Þetta kemur fram á vefnum Deadline.
Foster segir sjálf, að hún hafi heillast af myndinni og persónu Halldóru, sem fórnar öllu til að gera heiminn betri.
„Þegar við Dóra vorum 10 og 11 ára barnaþrælar á fjölum þjóðleikhússins að leika allar helgar í Óvitum sem er barnaleikrit um heimilisofbeldi og afleiðingar þess þá spurðist sú frétt út innan leikhópsins að verið væri að sína bíómynd í háskólabíó þar sem börn léku fullorðna alveg eins og í Óvitum. Þá fjölmenntum við barnaleikhópurinn á Bugsy Malone og sáum þar Jodie Foster á sama reki og við leika vændiskonu að nafni Talúlah.. "My name is Talulah" söng hún seiðandi...Og nú þessum 40 árum seinna renna slóðirnar saman og Jodie vill vera memm... Mér finnst satt að segja enginn betur til þess fallinn en Jodie Foster að leika fjallkonuna Höllu hennar Halldóru. Ég get tekið hattinn ofan fyrir öllu því sem hún hefur staðið fyrir. Hún er baráttukona og um leið ikon. Og við í föruneyti Konunnar sem fór í stríð erum blessuð af þessar samfylgd. Og ferðin er ekki á enda runnin,“ segir í Benedikt Erlingsson á Facebook.