Bandaríska skutlfyrirtækið Uber hefur hafið undirbúning fyrir skráningu félagsins á hlutabréfamarkað. Fyrirtækið skilaði inn fyrstu útboðsgögnum á fimmtudag samkvæmt frétt Reuters en stefnt er að félagið verði skrá á markað snemma á næsta ári.
Lyft stefnir einnig á skráningu á hlutabréfamarkað
Sama dag tilkynnti Lyft, helsti keppinautur Uber, að fyrirtækið hefði einnig sótt um skráningu. Samkvæmt umfjöllun Reuters stendur til að ráða stórbankana Morgan Stanley og Goldman Sachs til þess að hafa umsjón með skráningunni sem gæti orðið sú stærsta í bandaríska tæknigeiranum í nokkur ár.
Uber verður tíu ára á næsta ári en félagið er þegar orðið að risafyrirtæki. Skutlþjónusta Uber er í boði í yfir sjötíu löndum en Lyft býður aðeins upp á þjónustu sína í Bandaríkjunum og Kanada. Lyft stefnir að því að skrá félagið á hlutabréfamarkað í mars eða apríl á næst ári en von er á að skráning Uber verði um svipað leyti.
Allt að 120 milljarða dala virði
Uber var metið á 76 milljarða dala í síðustu fjármögnunarlotu og gæti fyrirtækið reynst allt að 120 milljarða dala virði í frumútboðinu. Í fyrsta skuldabréfaútboði Uber í október seldi félagið skuldabréf fyrir tvo milljarða dala, jafnvirði 234 milljarða króna og eftirspurnin reyndist meiri en gert hafði verið ráð fyrir.
Gert er ráð fyrir að tekjur Uber verði á bilinu 10 til 11 milljarðar dala í ár borið saman við 7,8 milljarða dala í fyrra. Félaginu hefur ekki enn tekist að skila hagnaði.
Fjöldi hneykslismála
Aukið eftirlit og athygli fylgir því að skrá félag á hlutabréfamarkað en röð hneykslismála hafa fylgt Uber á síðustu árum. Fyrirtækið hefur m.a. þurft að greiða 56 fyrrverandi og núverandi starfsmönnum 200 milljónir króna í skaðabætur vegna kynferðislegrar áreitni. Auk þess varð sjálfkeyrandi bíll fyrirtækisins konu að bana fyrr á þessu ári. Uber stöðvaði tilraunir sínar með sjálfkeyrandi bíla í nokkrum borgum í Bandaríkjunum eftir banaslysið. Félagið hefur reynt að rétta úr kútnum m.a. með því að ráða Dara Khorosrowshahi sem stjórnanda fyrirtækisins.
Uber hefur bætt ýmsu við þjónustu sína á síðustu árum, til dæmis með því bjóða upp matarsendingar og leigu á rafmagnshjólum og vespum. Félagið kynnti síðan í síðustu viku til sögunnar Uber strætisvagnaþjónustu í Kaíró. munu notendur í höfuðborg Egyptalands geta pantað far með smárútu og sér forrit Uber um að smala saman í eina rútu fólki sem er á sömu leið.