Rússnesk stjórnvöld hafa í rúm fjögur ár, frá ágúst 2014, framfylgt innflutningsbanni á flestar tegundir matvæla frá vestrænum ríkjum sem beita Rússlandi efnahagsþvingunum. Ísland er á meðal þeirra ríkja en Ísland hefur verið á innflutningsbannlista í Rússlandi síðan í ágúst 2015. Útflutningur Íslands til Rússlands hefur dregist saman um 90 prósent síðan 2014.
Útflutningur til Rússlands árið 2014, síðasta heila árið áður en kom að gagnþvingunaraðgerðum Rússlands gegn Íslandi, nam rúmlega 29 milljörðum króna. Til samanburður var heildarútflutningur til Rússlands árið 2017 rúmir 7 milljarðar, þar af gömul fiskiskip fyrir 5,3 milljarða. Þetta kemur fram í svari Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Karli Gauta Hjaltasyni, óháðum þingmann, um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi.
Útflutningur á makríl fyrir 9 milljarða árið 2014
Árið áður en aðgerðirnar komu til var Ísland næst á eftir Finnlandi og Eystrasaltsríkjunum á lista Evrópuríkja sem fluttu mest af matvælum inn á Rússlandsmarkað. Stöðugur uppgangur hafði verið í sölu sjávarafurða til Rússlands árin þar á undan en útflutningur á makríl til Rússlands fór úr því að vera enginn í 9 milljarðar frá 2013 til 2014. Það ár var makríll um 40 prósent af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða sem flutt var til Rússlands.
Útflutningur til Rússlands nam 29 milljörðum árið 2014
Útflutningur til Rússlands árið 2014, síðasta heila árið áður en kom að gagnþvingunaraðgerðum Rússlands gegn Íslandi, nam rúmlega 29 milljörðum króna og þar af fiskur fyrir 23,9 milljarða króna, þá eru ekki talin með þjónustuviðskipti upp á rúmlega 5,6 milljarða króna. Ísland var ekki á lista fyrir ríki í innflutningsbanni fyrsta árið þrátt fyrir að taka þátt í þvingunaraðgerðunum en var bætt á hann 13. ágúst 2015 ásamt sex öðrum ríkjum. Ef borinn er saman heildarútflutningur Íslands til Rússlands árið 2014 við útflutning bæði 2016 og fyrri helming 2017 þá sýna tölur Hagstofunnar 90 prósent samdrátt í heildarútflutningi. Sé vöruútflutningur á árinu 2016 borinn saman við árin 2012 og 2013 nemur samdráttur á milli 87 til 89 prósent.
Á seinni helmingi ársins 2017 voru seld gömul fiskiskip til Rússlands sem skekkir heildartölurnar segir í svari utanríkisráðherra. Heildarútflutningur til Rússlands 2017 nam rúmum 7 milljörðum, þar af gömul fiskiskip fyrir 5,3 milljarða. Unnar sjávarafurðir, niðursoðin lifur, feiti og olíur, voru fluttar út fyrir 438 milljónir og kjöt fyrir 156 milljónir. Útflutningur fisks nam 328 milljónum en þarna er um að ræða fisk með grænlenskan uppruna sem landað hefur verið á Íslandi fyrir útflutning til Rússlands. Í svarinu segir að þessi þróun hefur haldið áfram og það sem af er ári hefur verið flutt út til Rússlands vörur fyrir u.þ.b. 8,5 milljarða kr., þar ef eru notuð fiskiskip rúmir 6 milljarðar kr.
Ekki fundist jafnarðbærir markaðir
Í fyrirspurninni er óskað eftir svörum um hvernig þvinganir hafa snert íslenska hagsmuni og í svarinu segir að fyrir liggur að kostnaður Íslands við þvinganir sé verulegur þar sem ekki hafi fundist jafnarðbærir markaðir fyrir uppsjávarfisk, sérstaklega makríl, loðnu, loðnuhrogn og síld, sem mikið var flutt af til Rússlands fram til 2015. „Áhrifanna hefur gætt mjög greinilega í þeim bæjarfélögum á Íslandi þar sem uppsjávarvinnsla er burðarás atvinnulífsins“ segir í svarinu. Þó er bent á að en til þess verður þó að taka að afurðirnar hafi í sumum tilvikum farið á aðra markaði en að lægra verð fáist fyrir þá og meira magn fari í bræðslu, ásamt því hefur birgðakostnaður aukist.
Utanríkisráðherra segir í svarinu að ómögulegt sé að spá um langtímaáhrif bannsins á markaðsaðgengi og mögulega breyttar neysluvenjur í framtíðinni en þessi staða sé vissulega áhyggjuefni fyrir íslenska útflytjendur. Í svari utanríkisráðherra er þó tekið fram að það eru ekki þvingunaraðgerðir vestrænna ríkja gagnvart Rússlandi sem hafa valdið íslenskum fyrirtækjum búsifjum heldur sé við gagnþvingunaraðgerðir Rússa að sakast.
Í svarinu segir jafnframt að ef þvingununum skyldi vera létt þá beri að hafa í huga að rússneskur markaður hefur breyst mjög mikið á síðustu árum. Fiskneysla í Rússlandi hefur dregist saman um 15 til 30 prósent samhliða minna framboði þar í landi. En á milli 2013 og 2016 var 51 prósent samdráttur í innflutningi sjávarafurða og verð á fiski út í búð hækkaði um 40 til 50 prósent í Rússlandi, bæði vegna minna framboðs en aðallega vegna falls rúblunnar. Í svarinu er hins vegar bent á að uppsjávarfiskur er hins vegar ódýr vara og eftirspurn ætti því enn að vera til staðar.
Ásamt því er bent á að kaupgeta almennings í Rússlandi hefur minnkað samfara efnahagssamdrætti og veikingu rúblunnar í kjölfar efnahagsþvingana og lækkandi hráolíuverðs á árunum 2014 til 2018. Í svarinu segir einnig að styrking krónunnar frá 2015 hefði trúlega haft áhrif á arðbærni útflutnings til Rússlands, líkt og gildir um útflutningsgreinar almennt. Að lokum segir í svarinu að rússnesk stjórnvöld hafi lagt á það áherslu síðustu misseri að byggja upp sjálfbærari matvælavinnslu innan lands með styrkingu landbúnaðar og sjávarútvegs. Þessi uppbygging kann að draga úr innflutningi til lengri tíma litið en hefur jafnframt skapað mikil tækifæri fyrir íslensk þekkingarfyrirtæki í hönnun og framleiðslu fiskiskipa, útgerðartækni, veiðarfæra og matvælavinnslu.
Þvingunaraðferðum að þakka að Rússland hafi ekki gengið lengra
Í marsmánuði árið 2014 tilkynntu hartnær 40 ríki um þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi, þeirra á meðal voru öll ríki EES-samstarfsins. Þær þvinganir voru sameiginleg viðbrögð við innrás Rússa í Úkraínu, hertöku Krímskaga og stuðningi þeirra við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Utanríkisráðuneyti Íslands gaf út fréttatilkynningu þann 17. mars 2014 þar sem lýst var yfir stuðningi við þvingunaraðgerðirnar og tilkynnt að Ísland mundi einnig beita slíkum þvingunaraðgerðum.
Í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Karls Gauta segir utanríkisráðherra að markmið þvingunaraðgerða vesturlandanna sé einkum þríþætt. Í fyrsta lagi að sendi þau pólitísku skilaboð að afleiðingar fylgdu aðgerðum rússneskra stjórnvalda í Úkraínu, þar sem alþjóðalög voru þverbrotin og landamærum breytt með vopnavaldi sem ekki eigi sér hliðstæðu í sögu Evrópu frá tímum síðari heimsstyrjaldar.
Í öðru lagi sé markmiðið að letja rússnesk stjórnvöld til frekari aðgerða gagnvart Úkraínu. Í þriðja lagi segir í svarinu að markmiðið sé að fá rússnesk stjórnvöld til að falla frá stefnu sinni gagnvart Úkraínu, bæði er varðar Krímskaga og austurhluta landsins.
Í svarinu segir að þvingunaraðgerðirnar hafi ekki haft þau áhrif að Rússland falli frá stefnu sinni gagnvart Úkraínu, en færa má gild rök fyrir því að Rússland hafi, sökum þeirra, ekki gengið lengra gagnvart Úkraínu en raun ber vitni.
Ekki stendur til að endurskoða þvingunaraðgerðir Íslands
Í fyrirspurninni er einnig er leitast eftir svörum um hvort að þvingarnir séu reglulega endurskoðaðar. Í svarinu segir að við endurskoðun á þvingunaraðgerðum vegna ástandsins í Úkraínu eru það einkum svokallaðir Minsk-samningar sem hafðir eru til grundvallar. Í Minsk-samningunum er meðal annars kveðið á um vopnahlé, brottflutning hergagna frá átakalínum, aðgengi að átakasvæðum og stjórnarfarslegar umbætur. Í svarinu segir að því fari fjarri að Minsk-samningarnir hafi komist til framkvæmda og því hafa Vesturveldin, þar með talið Ísland, viðhaldið þvingunaraðgerðum sínum.
Utanríkisráðherra bendir á í svari sínu að utanríkisráðuneytið hafi leitað eftir samstarfi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi í því augnamiði að skoða með hvaða hætti komið verði til móts við hina töpuðu markaðsstöðu í Rússlandi. Þá segir að utanríkisráðherra og fyrirrennarar hans hafi ítrekað bent á áhrif gagnaðgerða Rússlands á íslenska hagsmuni og kallað eftir aukinni samheldni á meðal vestrænna ríkja, síðast í ágúst 2017 í bréfi til utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Í kjölfarið hafi Evrópusambandið boðið Íslandi til viðræðna um möguleg úrræði og að í svarinu segir að þær viðræður standi enn yfir.
Ekki kannað hvort að ríkið kunni að vera skaðabótaskylt
Karl Gauti spyr að lokum í fyrirspurn sinni hvort að kannað hafi verið hvort að ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart íslenskum atvinnufyrirtækjum sem hafi orðið fyrir viðskiptalega tjóni vegna aðildar Íslands að þvingunum. Í svarinu segir að ekki hafi verið gerð könnun á því hvort íslenska ríkið kunni að vera skaðabótaskylt gagnvart íslenskum aðilum vegna aðildar Íslands að þvingunaraðgerðunum. Bent er á í svarinu að það sé ákvörðun rússneskra stjórnvalda að beita ríki gagnþvingunaraðgerðum, sem gæti orðið grundvöllur bótaskyldu. Um hana færi samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar, þar á meðal þyrftu almenn skilyrði bótaréttar að vera uppfyllt, svo sem að tjón hafi orðið, fjárhagslegt eða ófjárhagslegt, fyrir hendi séu orsakatengsl milli þess og tjónsvaldandi atburðar og bótagrundvöllur sé að öðru leyti fyrir hendi.