Vextir óverðtryggðra lána hafa hækkað mest allra vaxta hjá bönkum landsins, Arion banka, Landsbankanum og Íslandsbanka árið 2018. Vextir óverðtryggðra íbúðalána, bæði fastir og breytilegir, eru nú komnir yfir 6 prósent hjá öllum bönkunum. Mest hafa fastir vextir óverðtryggðra lána hækkað en hjá Íslandsbanka hækkuðu þeir vextir um 20 prósent á árinu 2018 eða um 1,25 prósentustig og um 1 prósentustig hjá Arion banka. Fastir vextir óverðtryggðra lána í Íslandsbanka eru nú hæstu íbúðalánavextir lánsins eða 7,40 prósent. Þetta má sjá í samantekt Aurbjargar um vaxtaþróun íbúðalána hjá bönkunum árið 2018. Tekin voru saman grunnlán íbúðalána, óverðtryggt, verðtryggt, breytilegir vextir og fastir vextir í 5 ár.
Vextir óverðtryggðra lána allt að 7,40 prósent
Í heildina hafa íbúðalánavextir hækkað mest hjá Arion Banka á árinu 2018 en vextir óverðtryggðra lána, bæði fastir og breytilegir, hækkuðu um 1 prósentustig hjá bankanum á árinu. Vextir verðtryggðra lána hækkuðu einnig hjá Arion banka á árinu, um 0,24 prósentustig og 0,17 prósentustig
Mest hafa fastir vextir á óverðtryggðum lánum hækkað hjá Íslandsbanka en þeir vextir hafa hækkað um 1,25 prósentustig frá janúar 2018 og voru 7,40 prósent þann 16. desember 2018. Fastir vextir óverðtryggðra lána hjá Arion banka hækkuðu um 1 prósentustig á árinu og fóru úr 5,95 prósentum í 6,95 prósent. Hjá Landsbankanum hækkuðu sömu vextir um 0,75 prósentustig og eru nú 6,80 prósent.
Breytilegir vextir óverðtryggðra lána hafa hækkað mest hjá Arion banka eða um 1 prósentustig frá janúar 2018. Arion er með hæstu breytilegu vextina á óverðtryggðum lánum eða 6,60 prósent þann 16.desember 2018. Hjá Landsbankanum og Íslandsbanka hafa sömu vextir hækkað um 0,25 prósentustig og eru nú 6 prósent hjá báðum bönkunum.
Vextir verðtryggðra lána ekki hækkað jafn mikið.
Vextir hafa hækkað minna þegar kemur að verðtryggðum lánum hjá bönkunum. Ef bornir eru saman vextir í janúar 2018 og vextir þann 16. desember 2018 má sjá að vextir verðtryggðra lána hafa hækkað mest hjá Arion banka. Breytilegir vextir verðtryggðra lána hafa hækkað um 0,24 prósentustig hjá Arion Banka og er nú 3,89. Hjá hinum bönkunum hafa sömu vextir aftur á móti lækkað eilítið, breytilegir vextir verðtryggðra lána hafa lækkað um 0,05 prósentustig hjá Íslandsbanka og 0,1 prósentustig hjá Landsbankanum, eru nú 3,6 prósent og 3,55 prósent.
Verðtryggð lán með föstum vöxtum hafa hækkað um 0,17 prósentustig frá janúar 2018 hjá Arion banka og vextirnir komnir upp í 3,97 prósent. Fastir vextir verðtryggðra lána hafa hins vegar lækkað eilítið frá janúar 2018 hjá Íslandsbanka um 0,1 prósentustig og Landsbankanum um 0,2 prósentistig.
Mikil aukning í óverðtryggðum íbúðalánum
Í mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs um húsnæðismarkaðinn sem birt var í síðustu viku kom fram að mikil aukning hefur verið í óverðtryggðum lánum á nýliðnum haustmánuðum. Í októbermánuði námu ný íbúðalán, að frádregnum umfram- og uppgreiðslum eldri lána, alls um 14,3 milljörðum króna en þar af voru óverðtryggð lán að fjárhæð 13,4 milljörðum króna.
Óverðtryggð lán voru því um 94 prósent af hreinum nýjum íbúðalánum fjármálastofnana til heimilanna í október. Í heildina eru íbúðalán heimila landsins um 79 prósent verðtryggð á móti 21 prósent óverðtryggðra.