Kröfu fjögurra þingmanna Miðflokksins um gagnaöflun og vitnaleiðslur fyrir Héraðsdómi vegna fyrirhugaðrar málssóknar gegn Báru Halldórsdóttur, sem hljóðritaði samskipti þeirra á Klaustri þann 20. nóvember síðastliðinn, hefur verið hafnað. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm þess efnis rétt í þessu en Stundin greindi fyrst frá.
Kröfu um efni af eftirlitsmyndavélum hafnað
Dómkirkjuprestur og skrifstofustjóri Alþingis verða því ekki kallaðir fyrir dóm vegna fyrirhugaðs málareksturs þingmanna gegn Báru líkt og Reimar Pétursson, lögmaður fjórmenninganna, hafði óskað eftir. Einnig hafði verið kallað eftir því að fyrirsvarsmenn og starfsmenn Klausturs yrðu leiddir fyrir dóm til vitnis um mannaferðir og aðstæður á barnum þann 20. nóvember.
Reimar hafði einnig farið fram á að lagt yrði fyrir dóm myndefni af eftirlitsmyndavélum Alþingis og Dómkirkjunnar sem myndi sanna hvernig brotið hefði verið gegn þingmönnunum. Reimar sagði að með myndefninu ætti að vera hægt að sjá nákvæmlega hvernig Bára hefði haldið upptökunni leyndri fyrir þingmönnunum og hvort einhverjir hefðu framkvæmt brotið með henni. Þessari kröfu hefur nú verið hafnað líkt og kröfunum um vitnaleiðslur hér fyrir ofan.
Erindið liggur nú hjá Persónuvernd
Ragnar Aðalsteinsson lögmaður Báru segir í samtali við Stundina að þau hafi frekar búist við þessari niðurstöðu. Ragnar segir að erindið liggi nú hjá Persónuvernd og að þingmennirnir fjórir hafa sagt að þeir ætli í einkamál. Hann segir að þau bíði því bara og sjái hvert framhaldið verði.
Greint hefur verið frá því að fjórir þingmenn Miðflokksins, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason eru skráðir sóknaraðilar á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur. Reimar Pétursson, lögmaður þeirra, hefur sagt að þingmennirnir fjórir hafi málshöfðun til skoðunar og að markmiðið með vitnaleiðslubeiðni sé einfalt, þeir vilji tryggja að sannað yrði hvernig brotið hefði verið gegn þeim.