Breska flugfélagið easyJet og hið ungverska flugfélag Wizz air keyptu lendingarleyfi WOW air á Gatwick flugvelli í London. Rétt fyrir jól staðfestu stjórnendur WOW air að félagið hefði selt lendingarleyfi sín á Gatwick en hvorki kaupverð né kaupandi var gefið upp í tilkynningunni þar sem um trúnaðarsamkomulag er að ræða. Nýuppfærðar upplýsingar um lendingarleyfi í Bretlandi sýna hins vegar að það voru flugfélögin EasyJet og Wizz air sem keyptu lendingarleyfi WOW air. Túristi.is greindi fyrst frá þessu.
Wizz air er í eigu Indigo Partners
Flugfélagið Wizz air er að stórum hluta í eigu félagsins Indigo Partners sem nú er í viðræðum við WOW air um kaup á félaginu. Hvert kaupverðið var fyrir lendingarleyfin kemur ekki fram í breskum gögnum um lendingarleyfi. Í gögnunum kemur þó fram að easyJet tekur við morguntímum WOW air en Wizz air tekur við kvöldtímunum á Gatwick samkvæmt umfjöllun Túrista.
Sala á leyfunum til Wizz Air fór fram 30. nóvember síðastliðinn, sama dag og tilkynnt var um að að flugfélagið Indigo Partners ætlaði mögulega að fjárfesta í WOW air. En daginn áður hafði Icelandair hætt við að festa kaup á WOW air. Salan á leyfunum til easyJet fór fram 5. desember.
Íslenskir fjölmiðlar greindu frá því skömmu fyrir síðustu mánaðamót að ein fljótlegasta leiðin fyrir WOW air til að verða sér úti um laust fé væri að selja lendingarstæði sín á Gatwick flugvelli. Þau stæði voru með þeim verðmætari í eigu WOW air. WOW air mun hætta að fljúga til Gatwick frá 31. mars næstkomandi og eftir það fljúga eingöngu um Stansted flugvöll í borgina.