Nærri því þrír af hverjum fjórum félögum í breska Verkamannaflokknum vilja að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um útgönguna úr Evrópusambandinu. Það er á skjön við skoðun Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, sem vill að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit árið 2016 verði endanleg. Þetta kemur fram í frétt Guardian í dag.
Tæplega 90 prósent myndu kjósa að vera áfram í ESB
Í könnunni kemur fram að að 72 prósent flokksmanna vilji að Corbyn styðji aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. Færi slík atkvæðagreiðsla fram myndu 88 prósent flokksmanna greiða atkvæði með áframhaldandi veru í ESB og 71 prósent kjósenda flokksins. Alls voru 1.034 félagar í Verkamannaflokknum spurðir út í afstöðu sína í skoðanakönnun sem framkvæmd var af rannsóknarhópi í Queen Mary University of London rétt fyrir jól 2018.
Corbyn ósammála flokksfélögunum
Jeremy Corbyn hefur ekki tekið undir kröfur félagsmanna sinna um að efnt skuli til annarrar þjóðaratkvæðagreiðsla. Leiðtogi Verkamannaflokksins vill að þingið fái að greiða atkvæði um Brexit-samning Theresu May en talið er að breska þingið muni kolfella samninginn. Þá þykir líklegt að boðað yrði til nýrra kosninga og þá myndi Corbyn freista þess í kjölfarið að fá umboð þjóðarinnar til að semja um hagstæðari samning við Evrópusambandið. Þrátt fyrir að leiðtogar Evrópusambandsríkja hafi þvertekið fyrir að semja upp á nýtt. Þetta kemur fram í viðtali við Corbyn í Guardian þann 22. desember síðastliðinn. Corbyn segist jafnframt vilja tollabandalag við Evrópusambandið og náið samband við hinn ábatasama innri markað Evrópusambandsins.
Samkvæmt frétt Guardian auka niðurstöður könnunarinnar þrýstinginn á að Corbyn krefjist annarar atkvæðagreiðslu. En 56 prósent meðlima flokksins sögðust íhuga það að yfirgefa flokkinn ef flokkurinn breytti ekki um stefnu þegar kemur að Brexit, það eru 88.000 manns.
Þrátt fyrir þessa gjá á milli stefnu Corbyn og afstöðu flokksmanna hans nýtur hann enn stuðnings sem formaður. En um 66 prósent félaga Verkamannaflokksins telja hann vera standa sig vel og 58 prósent telja að hann gæti náð betri Brexit-samningum sem forsætisráðherra en Theresa May í fyrrnefndri könnun.
May stefnir að því að leggja samninginn fyrir breska þingið í janúar
Stefnt er að því að Bretland gangi formlega úr Evrópusambandinu hinn 29. mars næstkomandi, hvort sem útgöngusamningur liggur fyrir eða ekki. Leiðtogaráð ESB hefur samþykkt útgöngusamning Theresu May, forsætisráðherra Breta, en breska þingið á enn eftir að samþykkja hann. Í byrjun desember frestaði May atkvæðagreiðslunni í breska þinginu um Brexit-samninginn vegna þess að ljóst þótti að samningurinn yrði kolfelldur í þinginu. Í kjölfarið stóð hún af sér vantrauststillögu þingmanna breska Íhaldsflokkinn og hefur í desember reynt að ná fram breytingum á samningnum í viðræðum við samninganefnd ESB.
May stefnir að því að leggja samninginn fyrir breska þingið nú í janúar. Ef May mistekst að koma samningnum í gegnum þingið í janúar þá gæti svo farið að Bretar gangi úr Evrópusambandinu án samnings. The Guardian sagði frá því í desember hvernig þungviktarmenn í þingflokkum Íhalds- og Verkamannaflokks vinni nú að því bak við tjöldin að knýja ríkisstjórn Theresu May til að fresta úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu um nokkra mánuði til að forðast samningslausan skilnað.
Breska ríkisstjórnin hefur nú þegar kynnt aðgerðir sem sýna að það er raunverulegur möguleiki á samningslausri útgöngu Breta. Ríkisstjórnin hefur undirbúið svokallaðar „varaáætlanir“ fari það svo að Bretland yfirgefi sambandið án samnings. Áætlanir ríkisstjórnarinnar felst m.a í því að 3500 hermenn verði í viðbragðsstöðu og að upplýsingabæklingum verði dreift til fyrirtækja um hugsanlegra breytinga á landamærum, þetta kemur fram í frétt á vef Sky News.