Fyrirtækið The Icelandic Milk and Skyr Corporation, sem stofnað var af Sigurði Kjartani Hilmarssyni árið 2006, var selt til franska mjólkurrisans Lactalis í byrjun síðasta árs. Fyrirtækið var í um 75 prósenta eigu Sigurðar, ættingja hans og vina. Kaupverðið var ekki gefið upp á þeim tíma vegna trúnaðar á milli kaupanda og seljanda. Í Markaðnum í dag er greint frá því að kaupverðið hafi verið að lágmarki 370 milljónir dala eða um 40 milljarðar króna miðað við þáverandi gengi.
Milljarðaviðskipti
Sigurður Kjartan Hilmarsson stofnaði fyrirtækið árið 2006 og byggði upp fyrirtækið frá fyrstu skyrblöndu. Áhuga á fyrirtækinu óx mjög á síðustu árum og fór svo að lokum að Lactalis keypti. Lactalis er alþjóðlegur risi með árlegar tekjur upp á tæplega 17 milljarða evra, eða sem nemur rúmlega 2.100 milljörðum króna. Bandaríski fjárfestingabankinn JP Morgan leiddi söluferlið og kom fram í umfjöllun CNBC í aðdraganda sölunnar, í október, að gert væri ráð fyrir að sölutekjur vegna Siggi’s Skyr yrðu um 200 milljónir Bandaríkjadala árið 2018 eða sem nemur um 22 milljörðum króna. Til samanburðar má nefna að heildarsölutekjur MS - vegna allra vara fyrirtækisins - á árinu 2016, námu 28 milljörðum króna.
Hluthafar fyrirtækisins, sem ber nafnið The Icelandic Milk and Skyr Corporation, voru fyrir söluna að mestu Siggi sjálfur og vinir hans og vandamenn. Svissneski mjólkurvöruframleiðandinn Emni Group átti 22 prósent hlut en hann kom fyrst inn í hluthafahópinn um mitt ár 2012. Nákvæm hlutföll voru ekki verið gefin upp við söluna.
Í umfjöllun Markaðarins segir að í uppgjöri Emmi Group fyrir fyrri helming síðasta árs kemur fram að framleiðandinn hafi bókfært hjá sér hagnað upp á 80,9 milljónir dala við sölu á öllum 22 prósenta hlut sínum í skyrfyrirtækinu. Eftir skatta nam söluhagnaðurinn 58,9 milljónum dala. Emmi Group fór með líkt greint er frá hér fyrir ofan með 22 prósenta hlut í skyrfyrirtækinu fyrir söluna til Lactalis og var þá eini fagfjárfestirinn í hluthafahópnum. Ekki liggur fyrir hvert virði eignarhlutarins var í bókum Emmi Group fyrir söluna til Lactalis.
Margfölduðu fjárfestinguna
Ingimundur Sveinsson arkitekt og fjölskylda voru á meðal stærstu hluthafa The Icelandic Milk and Skyr Corporation með um fimmtungshlut, samkvæmt heimildum Markaðarins, og fengu þau því um það bil átta milljarða króna í sinn hlut við söluna. Félag í eigu fjölskyldunnar, Eldhrímnir, setti fjármuni í skyrfyrirtækið á árunum 2006, 2008 og 2013 og var hlutur félagsins metinn á kostnaðarverði, 51 milljón króna, í bókum þess í lok árs 2017.
Að því gefnu að umrædd fjárhæð, 51 milljón króna, hafi verið eina hlutafjárframlag fjölskyldunnar til skyrfyrirtækisins nam innri ávöxtun fjárfestingar hennar hátt í 80 prósentum á ári á árunum 2006 til 2017, samkvæmt útreikningum Markaðarins.
Sonur Ingimundar, Sveinn Ingimundarson, var meðal hluthafa og hefur verið með Sigga í verkefninu, með einum eða öðrum hætti, frá upphafi. Í viðtali við Kjarnann í kjölfar sölunnar til Lactalis byrjun árs 2018 sagði Sigurður Kjartan að umbúðirnar hafi verið „x factorinn“ sem skipti miklu máli fyrir framgang og þróun Siggi's Skyr. Þær voru hannaðar af Sveini.
Eignarhlutur Sigurðar Kjartans nam, eftir því sem Markaðurinn kemst næst, um 25 prósentum. Ljóst er að þeir sem lögðu fyrirtæki Sigurðar til fé, líkt og Emmi, margfölduðu fjárfestingu sína, jafnvel þannig að þeir fengu hana meira en hundraðfalt til baka.
Skyrveldið varð til í eldhúsinu hjá Sigga
Vöxtur Siggi's skyr hefur verið hraður á undanförnum árum og núna fæst skyrið í um 25 þúsund verslunum í Bandaríkjunum. Í upphafi leit þó ekki út fyrir að mikið veldi væri í uppsiglingu en Sigurður Kjartan sagði frá skyrævintýrinu, sem hófst í New York fyrir meir en áratug, í viðtali við Kjarnann í byrjun árs 2018.
Sigurður Kjartan lauk MBA námi við Columbia háskóla í New York árið 2004, hóf störf hjá Deloitte í borginni í kjölfarið en sagði upp þegar skyráhuginn kviknaði. Hann byrjaði á að kynna skyrið sitt á litlu borði með skilti á markaði í New York. Sigurður fór í fjölda ferða á söluráðstefnur og fundi til að koma vörunni á framfæri og sannfæra viðskiptavini um ágætið. Aðspurður um hvaða fyrirtæki það hafi verið, sem hafi skipt miklu fyrir vörunar segir Siggi að verslunarkeðjan Whole Foods hafi þar verið mikilvæg. Að lokum opnuðu stærstu verslunarkeðjur heimsins opnuðu dyrnar fyrir skyrinu.
„Þetta er bara þrotlaus vinna, og það hættir aldrei.“ sagði Sigurður í viðtalinu og sagði engan einn galdur vera við þetta verkefni. „Það tekur tíma að byggja upp tengslin á markaði og traust á vörum og söluaðferðum og slíku. Ekkert kemur í staðinn fyrir það að vera á markaðnum á fyrstu stigunum.“
Vöxtur í kortunum
Þrátt fyrir söluna á fyrirtækinu þá er Siggi’s, og vörumerkin 30 sem undir því eru, í miklum sóknarhug samkvæmt Sigurði. Frá árinu 2013 hefur skyrið verið sú jógúrttegund sem hefur vaxið hvað hraðast á Bandaríkjamarkaði og er talið að fyrirtækið sé með um það bil tveggja prósenta markaðshlutdeild í jógúrtsölu þar í landi.
Sigurður segir, í viðtalinu við Kjarnann, lendinguna hafa verið góða, eftir tólf ára vinnu. Fjárfestar hafi fengið góða ávöxtun eftir mikla þolinmæði og starfsfólkið geti nú haldið áfram vinnu sinni. Blóð, sviti og kannski einhver tár, verða mögulega hluti af vaxtaráformum fyrirtækisins, eins og hingað til.
Hann segir að engin breyting verði á þeirra starfsemi og fyrirtækið muni halda áfram að starfa frá New York. Um 50 starfsmenn eru á skrifstofunni í New York, en svo eru mörg hundruð undirverktakar að störfum vítt og breitt, í framleiðslu og öðrum verkefnum sem sinna þarf.