Ríkisendurskoðandi veitir ekki upplýsingar um hvað fór fram í samtali við Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltasyni, fyrrverandi þingmenn Flokks fólksins, við Ríkisendurskoðanda í fyrra eða um hvort sá fundur hafi yfirhöfuð átt sér stað. Í skriflegu svari ríkisendurskoðanda við fyrirspurn Kjarnans segir að ríkisendurskoðandi sé trúnaðarmaður Alþingis og því ríki trúnaður um samtöl þingmanna við embættið.
Gagnrýndu að Inga Sæland væri gjaldkeri flokksins og færi með prófkúru
Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason hafa sagst átt fund með ríkisendurskoðanda í fyrra þegar þeir voru enn þingmenn Flokks fólksins. Ólafur sagði, í samtali við Morgunblaðið í gær, að ástæða fundarins væri sú að þeir töldu það skyldu sína að upplýsa ríkisendurskoðanda um að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, væri gjaldkeri flokksins og færi með prófkúru flokksins. „Eftirlit með fjárreiðum stjórnmálaflokka er á hendi Ríkisendurskoðunar. Skömmu eftir að nýr maður tók þar við embætti árið 2018 greindum við honum frá þessum staðreyndum og lýstum áhyggjum okkar. Við áttum ágætt samtal við hann um eftirlit með fjárreiðum stjórnmálaflokka,“ sagði Ólafur.
Síðasta laugardag sagði Karl Gauti, í aðsendri grein í Morgunblaðinu, að hann hefði margítrekað látið gagnrýni sína á getu Ingu Sæland til að leiða Flokk fólksins í ljós áður en slík gagnrýni náðist á upptöku á Klaustur bar 20. nóvember síðastliðinn. Eins og kunnugt er samþykkti meirihluti stjórnar Flokks fólksins að reka Karli Gauta og Ólaf úr þingflokknum þann 30. nóvember síðastliðinn eftir Klaustursamkomuna með Miðflokksmönnum og eru þeir því nú utan flokka á þingi.
Í greininni gagnrýndi Karl Gauti harðlega fjármálastjórnun Ingu Sæland, hann sagðist meðal annars ekki geta sætt sig við að opinberu fé væri ráðstafað til fjölskyldumeðlima stjórnmálaleiðtoga. „Ég tel ekki forsvaranlegt að formaður stjórnmálaflokks sitji yfir fjárreiðum hans með því að vera jafnframt prókúruhafi og gjaldkeri flokksins. Þá get ég heldur ekki sætt mig við að opinberu fé sé varið til launagreiðslna í þágu nánustu fjölskyldumeðlima stjórnmálaleiðtoga. Landslög kveða skýrt á um vandaða meðferð þeirra fjármuna sem stjórnmálaflokkar þiggja úr almannasjóðum og er mikilvægt að eftir þeim sé farið,“ sagði Karl Gauti.
Ólafur tók undir gagnrýni Karls Gauta á fjármálastjórnun Ingu Sæland í ofangreindu samtali við Morgunblaðið. Ólafur sagði að þetta væri gagnrýni sem þeir hefðu báðir haft uppi og sagðist sjálfur hafa gert athugasemdir við formann flokksins um fjármálin. „Ég lét uppi við formanninn það sjónarmið að ég teldi ekki rétt að fjármál flokksins væru í höndum kjörinna fulltrúa. Þetta gerðum við strax báðir snemma í nóvember árið 2017 á þingflokksfundi, skömmu eftir að við vorum kjörin á þing. Þegar upp komu ráðagerðir nokkru síðar um að ráða einstakling úr fjölskyldu hennar [á skrifstofu flokksins], þá sögðum við við formanninn að þetta væri eitthvað sem ætti ekki við. Þetta var á fyrri hluta ársins 2018,“ sagði Ólafur.
Inga ætlar ekki að láta prófkúruna frá sér
Inga Sæland hefur svarað gagnrýni fyrrverandi flokksmanna sinna og sagði það sorglegt að sjá hvernig fyrrverandi varaþingflokksformaður stigi nú fram fullur hefnigirni, í samtali við Vísi síðustu helgi. Hún sagðist hvorki hafa fengið gagnrýni á störf sín sem gjaldkeri og prófkúruhafi né að sonur hennar hafi verið ráðinn til flokksins fyrr en Karl Gauti hafi sett hana fram.
Inga sagði það rétt að hún hefði gegnt embætti gjaldkera áður en Jónína Björk Óskarsdóttir tók við embættinu í desember í fyrra. „Ég stofnaði Flokk fólksins og er allt í öllu í upphafi og var því gjaldkeri en lét af því embætti í desember þegar Jónína Björk Óskarsdóttir tók við,“ sagði Inga.
Hún sagðist ennþá vera með prófkúru á reikningi flokksins og að hún ætli ekki að láta hana frá sér. Hún sagði enn fremur að stjórn og kjördæmaráð hafi ákveðið að ráða son hennar á skrifstofu flokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.
Engar athugasemdir verið gerðar við fjármál flokksins
Stjórn Flokks fólksins sendi frá sér yfirlýsingu í gær og sögðu frá því að öll fjármál flokksins hefði verið lögð fram árlega og á réttum tíma undir skoðun löggilts endurskoðanda og Ríkisendurskoðanda.
Guðmundur Ingi Kristinsson, varaformaður flokksins og þingflokksformaður, sagði í þættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi að ekki væri neinn fótur fyrir gagnrýni á störf Ingu eða flokksins. Hann sagði að sonur Ingu hefði þá unnið sem sjálfboðaliði fyrir flokkinn og væri nýkominn á launaskrá og væri þar með eini starfsmaðurinn. Stjórnin hefði ráðið hann og sóst eftir því en Inga stigið til hliðar og reyndar ætlað að finna einhvern annan í verkefni sonar síns vegna tengslanna.
Karl Gauti vill að brottrekstur sinn sé tekinn til baka
Karl Gauti sagði í viðtali í þættinum 21 í gærkvöldi að hann vilji að brottrekstur sinn verði tekinn til baka, og hann fái aftur þingsætið sitt fyrir flokkinn ef Inga Sæland hætti sem formaður. Hann neitaði alfarið að vilja ganga í Miðflokkinn þótt honum hafi boðist það og sagðist haafa fengið boð frá fleiri flokkum sem hann vildi þó ekki nefna.
Í yfirlýsingu frá stjórn Flokks fólksins í gær voru Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson hvattir til að axla ábyrgð á eign gjörðum og segja af sér þingmennsku.