Breska þingið kolfelldi Brexit- samning Theresu May forsætisráðherra Bretlands, í gærkvöldi. Samningurinn var fellur með 230 atkvæðum, 432 þingmenn greiddu gegn samningnum en 202 þingmenn með. Forsætisráðherra Bretlands hefur ekki beðið stærri ósigur í breska þinginu í heila öld. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, lagði fram tillögu um vantraust á ríkisstjórn May í kjölfar niðurstöðunnar. Kosið verður um vantrauststillöguna klukkan sjö að staðartíma í kvöld.
Útgöngudagurinn nálgast
Nú ríkir ekki einungis óvissa um stjórnartíð Theresu May heldur einnig um útgöngu Bretlands. Bretar ganga að óbreyttu úr Evrópusambandinu 29. mars næstkomandi, hvort sem búið verður að ganga frá samningi um útgönguna eða ekki. Samkvæmt breskum fjölmiðlum er þó möguleiki að útgöngunni verði frestað fyrst að enginn samningur liggur fyrir og afar fáir innan breska þingsins og Evrópusambandsins vilji samningslausa útgöngu.
„Atkvæðagreiðsla kvöldsins segir okkur ekkert um hvað þingið vill. Ekkert um hvernig þingið eða hvort þingið ætlar að virða þá ákvörðun sem breska þjóðin tók í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem þingið boðaði,“ sagði May eftir atkvæðagreiðsluna í gærkvöldi.
Samningurinn hefur mætt mikilli andstöðu
Upphaflega átti Theresa May að leggja samninginn fyrir breska þingið í desember en þegar May var ljóst að þingið myndi fella samninginn þá frestaði hún atkvæðagreiðslunni. Samningurinn hefur mætt mikilli andstöðu í breska þinginu, bæði í röðum minnihluta og meirihluta. Þá hafa ráðherrar í ríkisstjórninni sagt af sér vegna óánægju með framgöngu mála. Þingmenn Íhaldsflokksins hafa sömuleiðis gert tilraun til þess að steypa Theresu May úr leiðtogasæti flokksins með atkvæðagreiðslu um vantraust.
Ein aðal hindrunin í samningnum er hvernig landamærum Írlands, sem er í Evrópusambandinu, við Norður- Írland, sem er hluti af Bretlandi, verði háttað efir útgönguna. Bæði Bretar og Evrópusambandið vilja forðast í lengstu lög að koma upp sjáanlegu landamæraeftirliti þar. En samkvæmt samningnum munu Norður-Írar þurfa að halda í stærri hluta af regluverki innri markaðar og tollabandalags ESB en önnur svæði Bretlands til þess að koma í veg fyrir sýnilega landamæragæslu á milli Norður-Írlands og Írlands.
May hélt ræðu í breska þingin áður en atkvæðagreiðslan fór fram og sagði að líklegra væri að ekkert yrði af úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu en að þeir myndu ganga úr sambandinu án samnings. Þá sagði hún það verða til þess að þjóðin myndi missa allt traust á stjórnmálamönnum og stjórnmálum. „Samningurinn er ekki fullkominn, hann er vissulega málamiðlun,“ sagði hún. „En þegar sögubækurnar verða skrifaðar mun fólk líta á ákvörðun þingsins og spyrja hvort að við framfylgdum niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar eða hvort við brugðumst bresku þjóðinni,“ sagði May.
Telja að ríkisstjórn May muni standa af sér vantraust
Stóru orðin dugðu þó ekki til og samningnum var hafnað af breska þinginu í gærkvöldi og því þarf ríkistjórn May að berjast fyrir lífi sínu í kvöld. Að sögn breskra fjölmiðla er þó ekki búist við að vantrauststillagan nái fram að ganga því sumir þeirra sem greitt hafi atkvæði gegn Brexit-samningnum hafi gefið til kynna að þeir ætli að styðja stjórnina áfram. Lýðræðislegi sambandsflokkurinn á Norður-Írlandi, DUP, hefur meðal annars lýst því yfir að hann ætli að styðja Theresu May, þó flokkurinn hafi greitt atkvæði gegn samningnum í gærkvöld.
Spurningin er hins vegar hvort þessi rúmi þriðjungur flokksmanna May sem felldi samninginn í gærkvöldi muni standa vörð um leiðtoga sinn. Samkvæmt frétt BBC má skipta þeim Íhaldsmönnum sem höfnuðu samningnum í tvær fylkingar. Öðrum hlutanum þykir samningurinn fela í sér of náið samband við Evrópusambandið en hinn hlutinn eru þeir þingmenn sem eru hlynntir Evrópusambandinu. Talið er að þingmenn Íhaldsflokksins gætu stutt ríkisstjórninstjórnina af ótta við að Verkamannaflokkurinn næði völdum í nýrri minnihluta- eða samsteypustjórn eða þá eftir nýjar kosningar. Í nýrri könnun sem birt var í fyrradag mælist Verkamannaflokkurinn með meira fylgi en Íhaldsflokkurinn.
May þarf stuðning 320 þingmanna til að standa af sér vantraustið en samkvæmt heimildum BBC er talið að fylking harðra Brexit-sinna einnig styðja stjórnina. Saman hafa Íhaldsflokkurinn og DUP 327 sæti þannig að lítið má út af bregða.
Hvað gerist næst?
Ef spá breskra fjölmiðla gengur ekki eftir og vantrauststillagan verður samþykkt liggur ljóst fyrir að breska ríkisstjórnin er fallin. Þá hafa flokkar á þinginu tvær vikur til að mynda ríkisstjórn. Ef það tekst ekki verður boðað til kosninga, en að minnsta kosti þurfa 25 dagar að líða frá því að boðað er til kosninga og þar til þær fara fram.
Í ræðu May í breska þinginu í dag sagðist að hún væri fullviss um að hún muni standa tillöguna af sér. Hún sagði jafnframt að ef svo færi þá muni hún snúa aftur á þingið í næstu viku með aðgerðaáætlun um næstu skref í útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
Ef Bretar óska eftir að útgöngutímabilið verði framlengt munu aðildarríki ESB koma saman á sérstökum fundi þar sem tekin verður afstaða til lengra tímabils. Leiðtogar Evrópusambandsins hafa ekki útilokað að lengja ferlið fram á sumar og eru víst byrjaðir að undirbúa það að fresta útgöngu Bretlands eftir að ljóst þótti að samningurinn yrði ekki samþykktur í breska þinginu. Ekki er vitað hversu langur frestur yrði gefinn en ólíklegt þykir að hægt verði að fresta samningnum lengur en til 30. júní en þá kemur nýtt Evrópuþing saman.
Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins, sagði í morgun að hættan á að Bretar færu úr sambandinu samningslausir hefði aldrei verið meiri. Áhersla yrði lögð á að koma í veg fyrir það. Pierre Moscovici, efnahags- og fjármálastjóri Evrópusambandsins, tók í sama streng. Moscovici sagði að í atkvæðagreiðslunni á breska þinginu í gær, þegar Brexit-samningnum var hafnað, hefði það komið skýrt fram hvað Bretar vildu ekki. Nú yrðu þeir að segja hvað þeir vildu, en tíminn væri naumur.
Margir evrópskir stjórnmálaleiðtogar hafa í morgun tjáð sig um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, og Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sögðu í morgun að Evrópusambandið væri að búa sig undir alla hugsanlega möguleika. Angela Merkel segir að það sé enn tími til að semja en hins vegar þurfi að bíða átekta og sjá hvaða skref Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hyggst stíga, nái hún að standa af sér vantrauststillögu gegn ríkisstjórn hennar sem greidd verða atkvæði um á breska þinginu í kvöld