Fjárlaganefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í gær að senda beiðni um stjórnsýsluúttekt á málefnum Íslandspósts til ríkisendurskoðanda. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Stjórnsýsluúttekt felur í sér mat á frammistöðu stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins. Við mat á frammistöðu er meðal annars litið til meðferðar og nýtingar á ríkisféi og hvort hagkvæmni sé gætt í rekstri.
Orsök fjárhagsvanda Íslandspósts ógreind
Íslandspóstur hefur nú þegar fengið 500 milljóna króan lán frá ríkinu til að mæta bráðasta lausfjárvanda fyrirtæksins. Í aukafjárlögunum sem samþykkt voru 14. desember er ákvæði umum heimild til að endurlána allt að 1500 milljónir til Íslandspóst en þó með ströngum skilyrðum. Þar segir að skilyrði lánveitingarinnar sé að lánið verði veitt á markaðsforsendum með fullnægjandi tryggingum. Ekkert liggur þó fyrir um hvernig Íslandspóstur ætlar að greiða umrædd lán til baka.
Í umsögn ríkisendurskoðunar um fjáraukalögin segir að Ríkisendurskoðun telji að það sé óheppilegt að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvernig fyrirhugað sé að taka á rekstrarvanda Íslandspósts þannig að tilskilinn árangur náist „áður en tekin er ákvörðun um framlög úr ríkissjóði til félagsins.“ Þá sé orsök fjárhagsvandans alls ógreind. Ekki liggi fyrir hvort hann stafi af samkeppnisrekstri eða starfsemi innan einkaréttar.
Ríkisendurskoðun virðist vera á þeirri skoðun að ekki liggi fyrir hvort að fjárhagsvandinn sé vegna einkaréttarhluta starfseminnar (þ.e. dreifingu áritaðra bréfa undir 50 grömmum), vegna alþjónustukvaða sem lagðar eru á fyrirtækið eða vegna samkeppnisstarfsemi sem það stundar. „Þeir möguleikar sem fyrir hendi eru á að takast á við vandann hljóta að ráðast að miklu leyti af niðurstöðu slíkrar greiningar,“ segir í umsögninni.
Fjárlaganefnd hefur samþykkt beiðni um stjórnsýsluúttekt á starfsemi Íslandspósts en markmið stjórnsýsluendurskoðunar er að stuðla að úrbótum þar sem horft er til ákveðinni atriða þar á meðal meðferðar og nýtingar ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni gætir í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort framlög ríkisskins skili þeim árangri. Í lögunum segir að við mat á frammistöðu skal meðal annars líta til þess hvort starfsemi sé í samræmi við fjárheimildir, þá löggjöf sem gildir um hana og góða og viðurkennda starfshætti.
Slæm rekstrarstaða
Íslandspóstur hefur ekki staðið undir sér undanfarin ár meðal annars vegna mikils samdráttar í bréfasendingum og niðurgreiðslu erlendra póstsendinga. Dreifingardögum póstsins hefur verið fækkað og póstburðargjald hefur þrefaldast á tíu árum. Eftirlitsaðilar hafa hins vegar bent á að slæma rekstrarstöðu Íslandspósts sé ekki aðallega að rekja til aukins kostnaðar við alþjónustu. Í athugasemdum Póst- og fjarskipstastofnunnar við skýrslu um rekstrarskilyrði Íslandspósts, frá árinu 2014, er meðal annars bent á að hundruð milljóna hafi tapast vegna lánveitinga til dótturfélaga Íslandspósts í samkeppnisrekstri. Íslandspóstur, m.a. vegna fjárfestingu í prentsmiðju Samskipta og láns til ePósts dótturfélags Íslandspósts.
Vilja að utanaðkomandi fyrirtæki geri óháða endurskoðun
Félag atvinnurekenda hefur ítrekað óskað eftir því að gerð verði óháð úttekt á rekstri Íslandspóst. Ólafur Stephensson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda, hefur bent á að Póst- og fjarskiptastofnun telji það ekki hlutverk sitt að rannsaka rekstrarvandræði Íslandspósts að þá sé Ríkisendurskoðun vanhæf þar sem stofnunin endurskoði reikninga Íslandspóst.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi segir svo ekki vera og segir að fjárhagsendurskoðun Ríkisendurskoðunar leggi ekki matá innri verkefni fyrirtækis .„Fjárhagsendurskoðunin felur meðal annars í sér frágang á reikningum til birtingar og skattlagningar ef um þá er að ræða. Slík vinna felur ekki í sér að lagt sé mat á innri verkefni hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar og hvort unnið sé eftir þeim lögum og reglum sem gilda,“ segir Skúli Eggert í samtali við Fréttablaðið í dag.
Ólafur Stephensson segir það ánægjulegar fréttir að fjárlaganefnd hafi samþykkt stjórnsýsluúttekt , í samtali við Fréttablaðið í dag. Hann telur þó enn að réttara væri að fá utanaðkomandi fyrirtæki til gera óháða endurskoðun á Íslandspósti. „Þótt farið sé í þessa vinnu má velta fyrir sér, með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð umrædda beiðni, hvort ekki sé rétt að fá utanaðkomandi fyrirtæki til að gera óháða endurskoðun sem snýr að reikningsskilum og upplýsingagjöf fyrirtækisins,“ segir Ólafur.