Á milli 63 og 64 prósent Íslendinga vilja að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund frá því sem nú er. Á bilinu 36 til 37 prósent þeirra vilja óbreytta stöðu klukkunnar. Um 23 prósent vilja að með fræðslu verði fólk hvatt til að ganga fyrr til náða og á milli 13 og 14 prósent myndu vilja að skólar, fyrirtæki og stofnanir hefji starfsemi seinna á morgnana.
Þetta kemur fram í nýbirtri könnun Maskínu í dag.
Töluverður munur er á viðhorfi til klukkunnar eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk myndi kjósa, samkvæmt könnuninni. Kjósendur Viðreisnar eru hlynntastir því að klukkunni yrði seinkað, eða 80,1 prósent, en kjósendur Miðflokksins andvígastir en 50,4 prósent þeirra vilja breytingu. Rúmlega 33 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilja hafa óbreytt ástand en að fólk sé hvatt til að ganga fyrr til náða en kjósendur Viðreisnar eru ólíklegastir til þess að vilja það, eða 10,3 prósent.
Norðlendingar vilja einna helst seinka klukkunni um eina klukkustund, eða 65,8 prósent, en Austfirðingar síst en 46,2 prósent vilja það.
Íslendingar með heimilitekjur lægri en 400 þúsund eru hlynntastir seinkun klukkunnar og eru einnig andvígastir því að klukkan haldi óbreyttri stöðu en skólar, fyrirtæki og stofnanir hefjist seinna. Einhleypir eru ólíklegastir þess að vilja seinka klukkunni og þeir sem ekki eiga maka eru hlynntastir seinkun klukkunnar.
Svarendur voru 1.373 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 11. til 18. janúar 2019.
Þrír valkostir
Greinargerðin „Staðartími á Íslandi – stöðumat og tillögur“ var birt á samráðsgátt stjórnvalda í síðustu viku. Greinargerðin var unnin í forsætisráðuneytinu og í henni er skoðað hvort færa eigi staðartíma nær sólartíma miðað við hnattræna legu landsins.
Í frétt forsætisráðuneytisins um málið kemur fram að rannsóknir sýni að nætursvefn Íslendinga sé almennt séð of stuttur en slíkt geti verið heilsuspillandi og haft áhrif á námsárangur og framleiðni í atvinnulífinu. Sérstaklega sé þetta áhyggjuefni vegna barna og ungmenna. Ein líkleg skýring sé að klukkan sé ekki í samræmi við hnattræna legu landsins.
Þrír valkostir eru settir fram í greinargerðinni. Í fyrsta lagi er lagt til að staðan verði óbreytt og klukkan áfram einni klukkustund fljótari en ef miðað væri við hnattstöðu. Með fræðslu sé fólk aftur á móti hvatt til að ganga fyrr til náða.
Í öðru lagi að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund frá því sem nú er, í samræmi við hnattstöðu landsins. Sem dæmi er tekið að ef klukkan er 11:00 nú þá verði hún 10:00 eftir breytingu.
Í þriðja lagi er lagt til að klukkan verði áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefji starfsemi seinna á morgnana.