Málaferli vegna synjunar á heimildum til innflutnings á fersku kjöti hafa kostað íslenska ríkið samtals um 47 milljónir króna. Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar um kostnað vegna banns á innflutningi á fersku kjöti.
Tvö mál vegna innflutnings á fersku kjöti
Alls hafa tvö mál verið rekin vegna ákvæða íslenskra laga og reglan um innflutning á fersku kjöti. Í fyrra málinu hóf Eftirlitsstofnun EFTA athugun árið 2012 á samræmi íslenskra laga við skuldbindingar ríkisins samkvæmt EES-samningum í kjölfar kvörtunar frá Samtökum verslunar og þjónustu. Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, innmat og ýmsum mjólkurvörum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar. Samtökin töldu þetta bann ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti feli í sér landamæraeftirlit sem ekki sé í samræmi við löggjöf EES-samningsins.
Málið var sent til EFTA- dómstólsins árið 2017 og í kjölfarið féll dómur 14 nóvember 2017. EFTA- dómstólinn komst að þeirri niðurstöðu að að íslenska leyfisveitingakerfið fyrir innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins. Dómstóllinn telur að það sé ósamrýmanlegt fimmtu grein tilskipunarinnar að skilyrða innflutning á slíkum vörum. Kostnaður íslenska ríkisins vegna málsins var í heild tæplega 36 milljónir eða 35.974.169.
Í seinna málinu stefndi fyrirtækið Ferskar kjötvörur ehf. íslenska ríkinu þann 25. apríl 2014 til greiðslu vegna skaðabóta vegna synjar á innflutningi ófrysts kjöt. Málinu lauk með dómi Hæstaréttar 11. október 2019, þar sem Hæstiréttur tók undir með málatilbúnaði fyrirtækisins um að sú synjun hefði farið gegn skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum sem leiddi til bótaskyldu ríkisins gagnvart fyrirtækinu. Bæturnar námi andvirði kjötsins og flutningskostnaði og þá var ríkið dæmt til að greiða fyrirtækinu málskostnað á báðum dómstigum. Málaferlin kostaði því íslenska ríkið að skaðabótum meðtöldum, 11.059.832.
Samtals er því kostnaður ríkisins vegna málaferlanna tveggja í heild rúmar 47 milljónir.
Matvælastofnun hefur einu sinni hafnað umsókn um innflutning kjöts eftir að dómur Hæstaréttar féll í fyrra
Enn fremur spyr Jón Steindór spyr ráðherra hvert áætlað verðmæti þeirra kjötvara sem synjað hefur verið eftir komu til landsins, þrátt fyrir að kröfur um dýraheilbrigðiseftirlit á sendingarstað hafi verið uppfylltar og í andstöðu við niðurstöður Hæstaréttar í fyrra. Í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að matvælastofnun hafi hafnað einni umsókn um innflutning kjöt eftir að dómur Hæstaréttar féll. Sú sending innihélt 226,5 kíló af ófrystu nautakjöti eða verðmæti 487.055 krónur.
Unnið að aðgerðum til að minnka áhættu af innflutning
Eftir niðurstöðu EFTA- dómstólsins í nóvember 2017 hefur atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið unnið að frumvarpi til breytinga á lögum um innflutning fersks kjöts. Samhliða því segir Kristján Þór, í svari sínu, að unnið hafi verið að aðgerðum í samstarfi við Matvælastofnun til að koma í veg fyrir breytt fyrirkomulag innflutnings leiði af sér áhættu gagnvart heilsu manna og dýra.
Meðal þess sem gert hefur verið ráðuneytið hefur sótt um viðbótartryggingar varðandi salmonellu til Eftirlitsstofnunar EFTA 4. júlí 2018. Hinn 16. janúar síðastliðinn var þessi umsókn íslenskra stjórnvalda samþykkt og er stjórnvöldum þar af leiðandi heimilt að setja sérstakar viðbótartryggingar vegna salmonellu í kjúklingakjöti, hænueggjum og í kalkúnakjöti. Jafnframt hafi verið unnið að aðgerðum til að takmarka hættu vegna kampýlóbakter, sýklalyfjaónæmis o.fl.