Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hefur lagt fram frumvarp, um breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, til að draga úr notkun plastpoka. Í frumvarpinu er lagt til að öllum verslunum verði óheimilt að afhenda burðarpoka úr plasti án endurgjalds á sölustöðum og að gjaldið verði sýnilegt á kassakvittun. Auk þess leggur ráðherra til að óheimilt verði að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem er með eða án endurgjalds, í versunum frá og með 1. júlí 2021.
Bannið nær einnig til þunnra plastpoka sem gjarnan má finna í grænmetisdeild verslana
Í frumvarpinu er sett fram tillaga að tölulegum markmiðum varðandi árlega notkun burðarpoka úr plasti. Lagt er til að eigi síðar en 31. desember 2019 skuli árlegt notkunarmagn burðarpoka úr plasti vera 90 á hvern einstakling eða færri og eigi síðar en 31. desember 2025 skal árleg notku vera 40 burðarpokar eða færri.
Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að óheimilt verði að afhenda burðarpoka úr plasti án endurgjalds á sölustöðum vara og að gjaldið skuli vera sýnilegt á kassakvittun. Með breytingunni er lögð skylda á aðila sem selja vörur, svo sem verslanir, að þeir þurfi að selja burðarpoka sem þeir afhenda eða bjóða fram við sölu á vöru. Skyldan um greiðslu nær til sölu á stökum burðarpokum við afgreiðslukassa sem og þunnra burðarpoka úr plasti sem gjarnan liggja frammi í grænmetisdeildum verslana. Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2019 í stað þess að um leið og þau eru samþykkt, til þess að söluaðilum sem afhenda burðarpoka án endurgjalds hafi ráðrúm til að laga sig að breyttri ráðgjöf.
Ef frumvarpið verður samþykkt mun bann við afhendingu á burðarpokum úr plasti taka gildi þann 1. janúar 2021. Samkvæmt greinargerðinni er frestur veittur til 2021 til þess að söluaðilar hafi ráðrúm til þess að taka í notkun burðarpoka úr öðrum efnum en plasti. Í frumvarpinu er lagt til að bann við afhendingu burðarpoka úr plasti nái einungis til þess þegar burðarpokar úr plasti séu afhentir við sölu á vörum en ekki er kveðið á um almennt bann við sölu á burðarpokum úr plasti. Því geta verslanir eftir sem áður haft til sölu burðarpoka úr plasti í hillum inni í sölurými verslana, verði frumvarpið að lögum. Bannið nær jafnframt til plastpokanna í grænmetisdeildum verslana.
Í samræmi við aðgerðaáætlun í plastmálefnum
Frumvarpið er í samræmi við aðgerðaáætlun um hvernig draga má úr notkun plasts, bæta endurvinnslu þess og takast á við plastmengun í hafi, sem skiluð var til umhverfis- og auðlindaráðherra í nóvember í fyrra. Í aðgerðaráætluninni má finna átján aðgerðir um hvernig megi draga úr notkun plasts, bæta endurvinnslu og takast á við plastmengun í hafi. Meðal annars var lagt til að stjórnvöld ráðist í markvissa vitundarvakningu almennings um ofnotkun á plastvörum, að flokkun úrgangs verði samræmd á landsvísu en ásamt því var lagt til að plast burðarpokar verði bannaðar í verslunum árið 2021.
Skiptar skoðanir á banninu
Óskað var eftir umsögnum við frumvarpsdrögin í samráðsgátt Stjórnarráðsins í nóvember í fyrra. Í greinargerð frumvarpsins segir að umsagnir um frumvarpið og aðgerðaráætlun í plastmálefnum hafi almennt verið jákvæðar og lýst yfir stuðningi við aðgerðir stjórnvalda til þess að draga úr plastnotkun. Þó hafi í nokkrum umsögnum verið gerð athugasemdir við að burðarpokar yrðu bannaðar eftir tvö ár.
Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu kemur meðal annars fram að mikilvægt sé að horfa til heildarumhverfisáhrifa vöru þegar opinberir aðilar ákveði að beita stjórnsýsluaðgerðum til að stýra neyslu í þágu umhverfisverndar. Í umsögninni segir að þröngt sjónarhorn, til dæmis ef eingöngu er horft til enda lífsferils, geti það orðið til þess að umhverfisáhrif falli af meiri þunga fyrr í lífsferlinum, svo sem við framleiðslu eða flutninga. Einnig þurfi að bera vöruna saman við staðgengilsvöru og meta hvað komi í staðinn.
Í skýrslu Umhverfisstofnunar Bretlands frá árinu 2011 er fjallað um niðurstöður vistferilsgreiningar á burðarpokum. Skoðaðar voru nokkrar gerðir plastpoka, bréfpokar og taupokar. Í öllum tilfellum eru umhverfisáhrif langmest vegna hráefnanotkunar og framleiðslu. Flutningar og förgun hafi aftur á móti minniháttar áhrif. Fyrir allar gerðir af pokum sé lykillinn að því að minnka umhverfisáhrifin sá að endurnota poka eins oft og hægt er, hvort sem er til sömu nota, þ.e. innkaupa, eða sem ruslapoka. Nota þarf pappírspoka þrisvar sinnum og taupoka 131 sinnum til að gróðurhúsaáhrif séu minni en vegna hefðbundinna plastpoka. Sé plastpoki endurnotaður þarf að endurnota pappírs- og taupoka enn oftar. Í skýrslunni kemur fram að hefðbundnir plastpokar hafi marga kosti fram yfir aðrar tegundir poka sem skoðaðir voru.
Í umsögn Landverndar kemur aftur á móti fram að rétt sé að hafa í huga að erlendar lífsferilsgreiningar sem gerðar hafa verið á burðarpokum úr plasti og fjölnota pokum séu ekki hafnar yfir gagnrýni og nauðsynlegt sé að skoða hlutina í sem víðustu samhengi. Þar kemur jafnframt fram að í nýlegri danskri lífsferilsgreiningu komi plastpokar best út, en þar hafi verið gert ráð fyrir því að þeir lendi í endurvinnslufarvegi. Urðun sé til dæmis ekki ásættanlegur farvegur í neinu samhengi en þar lendir stór hluti íslenskra burðarplastpoka, sem ruslapokar.
Ef bann við afhendingu burðarpoka úr plasti gengur eftir þá felur það í sér að söluaðili skal við sölu á vörum ekki bjóða viðskiptavinum sínum upp á burðarpoka úr plasti undir vörurnar, t.d. til að koma vörum heim. Í greinargerðinni er bent á að margar verslanir hafi þegar skipt burðarpokum úr plasti fyrir fjölnota burðarpoka eða burðarpoka úr öðrum efndum, markmið frumvarpsins sé að flýta enn frekar fyrir þessari þróun.