Prestar fá árlega fasta upphæð greidda til reksturs embætta þeirra. Á árunum 2013 til 2017 greiddi þjóðkirkjan prestum tæplega 620 milljónir króna í rekstrarkostnað vegna prestsembætta. Innifalið í þeim kostnaði er að stærstum hluta aksturskostnaður en einnig fatapeningur, póstkostnaður, símakostnaður og skrifstofukostnaður. Greiðslurnar bætast við laun presta sem ákvörðuð voru af kjararáði. Frá þessu er greint í Fréttablaðinuí dag.
Ríkisframlagið til þjóðkirkjunnar jókst um 19 prósent í fyrra
Í fjáraukalögum sem samþykkt voru í lok síðasta árs var fjárheimild til trúmála hækkuð um 820 milljónir króna. Það er til viðbótar við þá tæpu 4,6 milljarða sem þegar hafði verið ráðstafað til þjóðkirkjunnar í fjárlögum. Þá er ekki meðtalið rúmlega 1,1 milljarðs króna framlag til kirkjugarða. Þetta auka fjárframlag hækkaði ríkisframlagið til Þjóðkirkjunnar um tæp 19 prósent.
Framlagið til þjóðkirkjunnar er vegna hins svokallaða kirkjujarðarsamkomulags milli ríkis og kirkju sem gert var 10. janúar 1997. Í því var samið um að kirkjan léti af hendi kirkjujarðir að frátöldum prestssetrum og að andvirði seldra kirkjujarða rynni í ríkissjóð. Á móti myndi ríkissjóður greiða laun biskups Íslands, vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta kirkjunnar og 18 starfsmanna Biskupsstofu, annan rekstrarkostnað prestsembætta og Biskupsstofu, námsleyfi, fæðingarorlof, veikindi o.fl.
Til viðbótar skyldi ríkið greiða árlegt framlag í Kristnisjóð sem svaraði til 15 fastra árslauna presta. Ef það fækkaði eða fjölgaði í þjóðkirkjunni skyldi framlag ríkisins lækka eða hækka eftir tilteknum viðmiðum en þó aldrei niður fyrir tiltekinn fjölda starfa. Þá skyldu laun og launatengd gjöld fyrrgreindra starfsmanna þjóðkirkjunnar vera samkvæmt úrskurðum kjararáðs.
317 milljónir í aksturskostnað
Á árunum 2013 til 2017 greiddi Þjóðkirkjan prestum tæplega 620 milljónir króna í rekstrarkostnað vegna prestsembætta. Þetta kemur fram í svari Guðmundar Þórs Guðmundssonar, skjalastjóra Biskupsstofu, við fyrirspurn Fréttablaðsins um starfskostnað presta.
Greiðslur rekstrarkostnaðar til presta eiga sér stoð í lögum um embættiskostnað og aukaverk þeirra frá 1936. Þar segir að þjónandi prestar og prófastar skuli fá greiddan rekstrarkostnað embætta sinna frá Biskupsstofu samkvæmt reglum sem kirkjuþing setur. Í starfsreglunum er kveðið á um að skrifstofukostnaður prestsembætta sé á bilinu 252 til 294 þúsund krónur árlega en greiðslurnar eru misháar eftir fjölda íbúa í sókn. Þá greiðast að auki 154 þúsund krónur árlega í síma-, póst- og fatakostnað. Mestur kostnaður fer þó í aksturspeninga en árin 2013 til 2017 voru greiddar rúmar 317 milljónir í aksturspeninga
Rekstarkostnaður bætist við launakostnað
Samkvæmt reglunum eiga prestar rétt á að fá greiddan árlegan aksturs- og ferðakostnað. Sú upphæð fer eftir landfræðilegri staðsetningu og víðfeðmi sóknar. Svo dæmi séu tekin fá sérþjónustu- og héraðsprestar til að mynda 250 þúsund krónur á ári í aksturskostnað og sóknarprestar á höfuðborgarsvæðinu, sem starfa einir með fleiri en eina sókn, fá 380 þúsund. Prestar erlendis fá síðan 600 þúsund krónur og prestar í víðfeðmum prestaköllum fá 850 þúsund.
Presti er einnig heimilt að sækja um undanþágu frá föstum mánaðarlegum akstursgreiðslum og fá þess í stað akstur greiddan samkvæmt akstursdagbók. En samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins geta þær greiðslur aldrei orðið hærri en hámarksgreiðslur þær sem fyrr var getið.
Enn fremur er í gildi gjaldskrá fyrir aukaverk presta á borð við skírnir, fermingar, hjónavígslur og útfarir. Þar greiðast til að mynda rúmar 19 þúsund krónur fyrir fermingu og tæp 25 þúsund fyrir útfarir. Skírnir eru ókeypis sé þeirra beiðst við guðsþjónustu. Prestar geta þá innheimt ferðakostnað samkvæmt almennu aksturgjaldi ríkisstarfsmanna vegna aksturs í tengslum við skírn eða hjónavígslu.
Greiðslur fyrir rekstur embættisins bætast við laun presta og prófasta sem ákveðin voru af kjararáði. Þau eru á bilinu 768 þúsund til rúmrar milljónar eftir fjölda sóknarbarna og hvort um prest eða prófast er að ræða. Samanlagt getur því árleg greiðsla vegna rekstarkostnaðar samsvarað þrettánda mánuðinum í launum hjá prestum.
Samningaviðræður milli ríkis og kirkju standa yfir
Í frumvarpi til fjáraukalaga segir að í kjölfar bankahrunsins hafi orðið forsendubrestur í ríkisfjármálum og til að bregðast við því var óhjákvæmilegt að gera umtalsverðar aðhaldskröfur í rekstrarútgjöldum allra ríkisstofnana og rekstraraðila sem fjármagnaðir eru úr ríkissjóði. Í tilfelli þjóðkirkjunnar var um sambærilegar aðhaldskröfur að ræða og gerðar voru í öðrum almennum rekstri hjá ríkinu. Í fjáraukalögum 2015, 2016,2017 og 2018 voru tillögur samþykktar um auka fjárveitningu undir þeim formerkjum að viðræður mundu hefjast við kirkjuna um endurskoðun kirkjujarðasamkomulagsins.
Samningaviðræður við kirkjuna um endurskoðun kirkjujarðarsamkomulagsins standa nú yfir og er stefnt að því að þeim ljúki á fyrri hluta árs 2019. Endurskoðunin felur í sér endurskoðun allra fjárhagslegra samskipta ríkis og kirkju, þar með talið sóknargjöld, jöfnunarsjóð sókna, framlög til kirkjumálasjóðs og Kristinssjóðs.