Allmargar ríkisstofnanir virðast hrifnar af veitingastaðnum Múlakaffi en um sautján ríkisstofnanir keyptu veitingar af Múlakaffi fyrir samanlagt 7 milljónir í desember á síðasta ári. Þetta má sjá á vefnum Opnir reikningar. Á vefnum eru birtir reikningar frá 132 ríkisstofnunum í þeim tilgangi að veita einfalda og skýra mynd af viðskiptum stofnana með því að birta yfirlit yfir greidda reikninga.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu verslaði fyrir 2,6 milljónir í desember
Á vefnum Opnir reikningar má sjá að í síðasta mánuði versluðu sautján ríkisstofnanir við Múlakaffi fyrir samanlagt 7.030.261 krónur. Þar á meðal voru Barnaverndarstofa, Fangelsismálastofnun ríkisins, Landspítalinn, Héraðssaksóknari og Lögreglan.
Alls greiddi Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu Múlakaffi 2.649.982 krónur fyrir veitingar í desember. Tollstjóri keypti veitingar fyrir rúma milljón og Þjóðskrá fyrir tæpar 800 þúsund krónur í desember.
Múlakaffi hagnaðist um 81,4 milljónir
Múlakaffi hefur verið starfrækt frá árinu 1962 og var stofnað af Stefáni Ólafssyni. Sonur hans, Jóhannes Stefánsson, tók síðar við fyrirtækinu af föður sínum árið 1989. Veitingastaðurinn Múlakaffi er staðsettur í Hallarmúla en þar fer öll framleiðslan fram og starfa þar um 30 manns. Múlakaffi rekur einnig veisluþjónustu og fyrirtækjaþjónustu.
Hagnaður Múlakaffis nam 81,4 milljónum króna árið 2017, samanborið við 138,2 milljónir árið áður, samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins. Tekjur félagsins námu rúmum 2,4 milljörðum króna og jukust um tæp 13 prósent milli ára, en rekstrargjöld 2,3 milljörðum.
Laun og launatengd gjöld námu 875 milljónum og ársverk voru um 110. Heildareignir voru tæpur 1,1 milljarður í lok árs 2017 og eigið fé tæpar 420 milljónir, 7 prósent meira en árið áður.
Opnir reikningar
Vefurinn Opnir reikningar var hleypt af stokkunum fyrir rúmu ári en þar er hægt að nálgast greidda reikninga ráðuneyta og 132 ríkisstofnana. Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að gera megi ráð fyrir að heildarumfang upplýsinga á vefnum nemi árlega um 45 milljörðum króna. Undanfarna mánuði hafa upplýsingar stórra stofnana, svo sem Landspítala, verið birtar á vefnum.
Vefnum var komið á fót í samræmi við stefnu stjórnvalda um bætt viðmót og aðgengi að stjórnsýslu. Samkvæmt Stjórnarráðinu er þeim ætlað að veita einfalda og skýra mynd af viðskiptum stofnana með því að birta yfirlit yfir greidda reikninga. Markmiðið er að hægt sé að skoða greidda reikninga nálægt rauntíma, en vefurinn er uppfærður mánaðarlega en hægt er að skoða viðskiptin út frá stofnunum, birgjum, tegund kostnaðar og tímasetningu.