Frávísunartillagan sem samþykkt var á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun sneri einungis að tillögu þess efnis að setja ætti af formann nefndarinnar, Bergþór Ólason en ekki lá fyrir tillaga um nýjan formann.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu þingflokksformanna Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks vegna frétta af fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun.
Þau telja að óvissa hafi verið um hvort tillagan hafi verið tæk og segja að frávísunartillagan hafi ekki verið stuðningsyfirlýsing við nefndarformennsku Bergþórs Ólasonar.
Í tilkynningunni segir enn fremur að formennska í umhverfis- og samgöngunefnd sé hluti af samkomulagi milli meirihluta og minnihluta. Samkvæmt samkomulagi þingflokksformanna í kjölfar þingkosninga 2017 hafi formennska fallið í þremur nefndum í skaut stjórnarandstöðuflokka og formennska í fimm nefndum í skaut stjórnarflokkanna. Það sé á forræði þingflokksformanna ef breyta á samkomulaginu og hafa þannig áhrif á nefndarformennsku.
Í fjarveru Þórunnar Egilsdóttur og Birgis Ármannssonar eru starfandi þingflokksformenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þau Willum Þór Þórsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Tillögu um að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, myndi ekki sitja áfram sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar var vísað frá á fundi nefndarinnar í morgun. Í dag var fyrsti fundur umhverfis- og samgöngunefndar eftir að Bergþór tók sæti á Alþingi á ný í síðustu viku.