Tillögu um að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, myndi ekki sitja áfram sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar var vísað frá á fundi nefndarinnar í morgun. Frá þessu er greint á Rúv. Í dag var fyrsti fundur umhverfis- og samgöngunefndar eftir að Bergþór tók sæti á Alþingi á ný í síðustu viku.
Vilja ekki að Bergþór verði áfram formaður
Fjallað hefur verið um að andstöðu nokkra nefndarmanna umhverfis- og samgöngunefndar við formennsku Bergþórs síðustu daga en Bergþór var einn þeirra þingmanna sem hvað mest fór fyrir á Klausturbar í nóvember. Í kjölfarið tók Bergþór sér leyfi frá þingstörfum en sneri aftur á þing í síðustu viku. Bergþór stýrði fundinum í morgun en fundurinn í dag var fyrsti fundur umhverfis- og samgöngunefndar eftir að Bergþór sneri aftur á þing. Samkvæmt upplýsingum Rúv kom fram tillaga á fundinum að Bergþór sæti ekki áfram sem formaður, en þeirri tillögu var vísað frá.
Afgreiddu samgönguáætlun úr nefndinni í dag
Jón Gunnarsson, varaformaður nefndarinnar, stýrði fundinum síðustu tíu mínúturnar, samkvæmt upplýsingum Rúv. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, yfirgaf fundinn tíu mínútum áður en hann lauk, afar ósáttur við að Bergþór Ólason ætlaði að sitja áfram sem formaður nefndarinnar. Í frétt Rúv segir að þrátt fyrir þetta hafi tekist að afgreiða samgönguáætlun úr nefndinni, en í áætluninni eru meðal annars fyrirætlanir um uppbyggingu á vegakerfinu með veggjöldum.
Uppfært: Samkvæmt frétt Vísis lagði Helga Vala fram tillögu með stuðningi Hönnu Katrínar Friðriksson, formanns þingflokks Viðreisnar, og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, um að greidd yrðu atkvæði um formann nefndarinnar en þeirri tillögu var vísað frá af meirihluta nefndarinnar.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram frávísunartillöguna en að sögn Helgu Völu var hún studd af Líneik Önnu Sævarsdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, Vilhjálmi Árnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Ara Trausta Guðmundssyni, þingmanni VG, og þeim Bergþóri og Karli Gauta.