Íslandspóstur ohf. ákvað að leggjast í stækkun á flutningamiðstöð fyrirtækisins árið 2017 fyrir tæpar 700 milljónir á meðan daglegur rekstur var fjármagnaður með yfirdráttarlánum. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en blaðið fékk aðgang að fundargerðum Íslandspósts frá árinu 2013. Í heildina hefur Íslandspóstur varið rúmlega 5,8 milljörðum króna í fjárfestingar í fasteignum, lóðum, áhöldum, tækjum og bifreiðum frá árinu 2006. Á móti hafa eignir fyrir rúmar 600 milljónir króna verið seldar.
Stórar fjárfestingar samþykktar þrátt fyrir slæma rekstarafkomu
Upphaflega áætlanir Íslandspósts um stækkun flutningamiðstöðvarfyrirtækisins að Stórhöfða gerðu ráð fyrir því að framkvæmdirnar yrðu allt að þrefalt dýrari en raun varð. Í fundargerðum fyrirtækisins kemur fram að það hafi legið lengi fyrir að núverandi flutningamiðstöð væri of smá í sniðum en gríðarleg aukning hefur orðið í erlendum sendingum hingað til lands á síðustu árum.
Á fundi stjórnar í apríl 2015 voru hugmyndir um stækkun miðstöðvarinnar fyrst viðraðar. Þá var miðstöðin 5.600 fermetrar en áætlanir gerðu ráð fyrir að hún þyrfti að stækka um 3.300 fermetra hið minnsta fyrir árið 2025.
Rúmu ári síðar á fundi stjórnar í júní 2016 voru tillögudrög að viðbyggingu kynntar. Ræddi stjórn þá hvort réttlætanlegt væri að Íslandspóstur færi í svo viðamiklar framkvæmdir í ljósi rekstrarafkomu ársins 2015 en þá tapaði fyrirtækið 118 milljónum. Tveimur mánuðum síðar voru kynntar tvær tillögur að stækkun. Önnur þeirra gerði ráð fyrir framkvæmdum upp á 1,8 milljarð en hin miðaði við 2,2 milljarða.
Á fundi stjórnar í nóvember 2017 var ákveðið að byggja við flutningamiðstöðina en áætlaður kostnaður við framkvæmdina var 698 milljónir króna. Á sama tíma stóðu yfir framkvæmdir við byggingu nýs pósthúss á Selfossi en áætlað var að sú framkvæmd kostaði 608 milljónir króna.
Í desember 2017 samþykkti stjórnin heimild til allt að 1,25 milljarða. Í apríl 2018 var síðan samþykkt heimild fyrir 1,75 milljarða láni. Var það hugsað til að endurfjármagna lánin frá í desember árið áður og til að fjármagna 500 milljóna yfirdráttarlán. Á þeim tíma sem framkvæmdin var samþykkt stóð handbært fé í 215 milljónum króna eftir slæmt rekstrarár, segir í umfjöllun Fréttablaðsins.
Stjórnsýsluúttekt á Íslandspósti hefur verið samþykkt
Mikið hefur verið fjallað um Íslandspóst á síðustu mánuðum eftir að Alþingi samþykkti að veita Íslandspóst 1,5 milljarða neyðarlánsheimild til að forða fyrirtækinu frá þroti. Af þeirri upphæð hefur félagið nú þegar fengið 500 milljónir. Ekki liggur fyrir hvernig og hvort fyrirtækið geti endurgreitt það lán. Fjárlaganefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í janúar að senda beiðni um stjórnsýsluúttekt á málefnum Íslandspósts til ríkisendurskoðanda en stjórnsýsluúttekt felur í sér mat á frammistöðu stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins. Við mat á frammistöðu er meðal annars litið til meðferðar og nýtingar á ríkisfé og hvort hagkvæmni sé gætt í rekstri.
Forsvarsmenn Íslandspósts hafa sagt að lausafjárvanda fyrirtækisins stafi meðal annars af samdætti í bréfum innan einkaréttar, afgreiðslutregðu stjórnvalda í gjaldskrár hækkunum og fjölgun erlendra sendinga. Aftur á móti hafa fjölmiðar fjallað um hvernig fjárfestingar Íslandspóst í dótturfélögum, offjárfestingar í byggingum og vanáætlaðar gjaldskrár samkeppnisrekstur gætu einnig átt í hlut.
Í heildina hefur Íslandspóstur varið rúmlega 5,8 milljörðum króna í fjárfestingar í fasteignum, lóðum, áhöldum, tækjum og bifreiðum frá árinu 2006. Á móti hafa eignir fyrir rúmar 600 milljónir króna verið seldar. Nettófjárfesting á tímabilinu er því rúmir fimm milljarðar króna. Þetta má lesa úr ársskýrslum Íslandspósts frá árinu 2006.