Alma Dagbjört Möller landlæknir segir það sláandi tölur að sjö prósent kvenlækna hafi á haustmánuðum síðasta árs orðið fyrir kynferðislegu áreiti á vinnustað. Hún vísar þar til niðurstaðna úr könnun um líðan og starfsaðstæður lækna, sem unnin var í október á síðasta ári. „Þetta finnst mér með ólíkindum miðað við alla umræðuna sem er í gangi. Þetta er eitthvað sem þarf að skoða strax,“ sagði Alma í samtali við Læknablaðið.
Tæplega fimmtíu prósent kvenlækna orðið fyrir áreiti
Á læknadögum í Hörpu í janúar síðastliðnum voru kynntar niðurstöður könnunar um líðan og starfsaðstæður lækna. Könnunin var unnin í október á síðasta ári en alls bárust svör frá 728 læknum, eða ríflega helmingi allra lækna á Íslandi. Í könnuninni kemur fram að tæplega fimmtíu prósent kvenkyns lækna hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti einhvern tímann á starfsævinni. Auk þess sögðu 7 prósent kvenlækna að þær höfðu orðið fyrir kynferðislegu áreiti á vinnustað á síðustu þremur mánuðum. Sambærilegar tölur hjá körlum voru 1 prósent á síðustu þremur mánuðum og 13 prósent yfir starfsævina.
Í könnuninni kemur einnig fram að 19 prósent lækna telji að einhver starfsfélagi hafi orðið fyrir kynferðislegu áreiti á vinnustað síðustu þrjá mánuði. Jafnframt segjast 65 prósent lækna hafa fundið fyrir streitueinkennum, síðustu sex mánuði eða lengur. Þarf af 71 prósent kvenna og 60 prósent karla.
Vitað að það er ekki nógu vel mannað víða í heilbrigðiskerfinu
Læknablaðið spurði Ölmu einnig út í aðrar niðurstöður skýrslunnar. Alma nefndi að það sem hefði gripið athygli hennar var hve stór hluti af þessari mikilvægu stétt finni fyrir einkennum eins og skertri einbeitingu eða minni, eða um 48 prósent lækna. „Bregðast þarf við þessu,“ sagði Alma og bætti við þetta hafi svo víðtæk áhrif, fyrst og fremst á einstaklinginn en í öðru lagi á vinnustaðinn. Hún segir að þetta geti síðan líka komið niður á gæðum meðferðar og öryggi sjúklinga ef svona sé komið.
Í könnunni kemur jafnframt fram að 37 prósent lækna hafi hugleitt að hætta störfum síðustu tólf mánuði en tveir þriðju lækna töldu álag of mikið. „Auðvitað vitum við að ekki er nógu vel mannað víða í heilbrigðiskerfinu og það þarf að bregðast við því, en það þarf líka að skoða aðra þætti sem lúta að vinnustaðnum sjálfum,“ sagði Alma benti einnig á að kulnun og streita væri ekki aðeins vandi lækna heldur víða í samfélaginu.