Laun forstjóra Íslandspósts hafa hækkað um tæp 43 prósent frá árinu 2014 til 2017. Auk þess hafa laun stjórnar hækkað um 65 prósent frá árinu 2014. Í upphafi árs 2018 samþykkti stjórn Íslandspósts að leggja fyrir aðalfund félagsins að laun stjórnarmanna yrðu hækkuð um tuttugu prósent. Á svipuðum tíma ákvað stjórnin að greiða starfsmönnum fyrirtækisins launauppbót í ljósi góðrar afkomu fyrirtækisins. Rúmu hálfu ári síðar, í september 2018, fékk fyrirtækið 500 milljóna króna lán frá ríkinu til að bregðast við lausafjárskorti fyrirtæksins. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Hækkun launa í ljósi góðrar afkomu
Í febrúar í fyrra samþykkti stjórn Íslandspósts að leggja fyrir aðalfund félagsins að laun stjórnarmanna yrðu hækkuð. Laun almennra stjórnarmanna myndu hækka úr 140 þúsund krónum á mánuði í 165 þúsund krónur. Laun formanns stjórnar eru tvöföld laun stjórnarmanns og fór hann því úr 280 þúsund krónum á mánuði og upp í 330 þúsund krónur. Hækkunin nam því tæpum átján prósentum. Þetta sýna fundargerðir stjórnar sem Fréttablaðið fékk aðgang að í krafti upplýsingalaga.
Þá var einnig samþykkt í upphafi síðasta árs að greiða starfsfólki launauppbót í ljósi góðrar afkomu fyrirtækisins árið á undan. En árið 2017 skilaði Íslandspóstur afgangi upp á rúmlega 216 milljónir króna. Var það annað árið í röð sem fyrirtækið hagnaðist eftir að hafa tapað samanlagt 280 milljónum árin þrjú á undan. Ársreikningur ársins 2018 liggur ekki fyrir.
Uppbótin hljóðaði upp á tuttugu þúsund krónur til starfsfólks í fullu starfi en greiðslur lækkuðu í samræmi við starfshlutfall til annarra. Lágmarksgreiðsla var þó ávallt tíu þúsund krónur. Kostnaður vegna launauppbótar til starfsmanna Íslandspósts nam 14,3 milljónum króna, samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins.
Íslandspóstur fékk heimild fyrir 1500 milljóna láni frá ríkinu í fyrra
Rúmu hálfu ári seinna, í september 2018, leitaði Íslandspóstur á náðir ríkisins og fékk 500 milljóna króna lán frá ríkinu til að bregðast við lausafjárskorti eftir að viðskiptabanki þess, Landsbanki Íslands, hafði lokað á frekari lánveitingar. Nokkrum mánuðum síðar, í desember, samþykkti Alþingi að lána fyrirtækinu allt að milljarð til viðbótar.
Í umsögn ríkisendurskoðunar, um auka fjárveitingu ríksins til Íslandspósts, segir að Ríkisendurskoðun telji að það sé óheppilegt að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvernig fyrirhugað sé að taka á rekstrarvanda Íslandspósts þannig að tilskilinn árangur náist áður en tekin er ákvörðun um framlög úr ríkissjóði til félagsins. Þá sé orsök fjárhagsvandans alls ógreind, ekki liggi fyrir hvort hann stafi af samkeppnisrekstri eða starfsemi innan einkaréttar. Fjárlaganefnd Alþingis samþykkti því í janúar á þessu ári beiðni til ríkisendurskoðanda um að unnin yrði stjórnsýsluúttekt á starfsemi Íslandspósts.
Laun stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og forstjóra hafa hækkað talsvert á síðustu árum
Frá árinu 2014 hafa laun stjórnarmanna Íslandspósts hækkað á hverju ári. Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins hefur hækkunin verið á bilinu ellefu til tólf prósent ár hvert. Hafi tillaga stjórnar um hækkun launa sinna verið samþykkt á aðalfundi Íslandspóst í fyrra þá hafa laun stjórnarmanna hækkað um 65 prósent frá árinu 2014. Formaður stjórnar er Bjarni Jónsson, varaþingmaður Vinstri grænna, og meðal stjórnarmanna er Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra.
Jafnframt má sjá af ársreikningum Íslandspósts frá árunum 2014 til 2017, en ársreikningur 2018 liggur ekki fyrir fyrr en eftir tæpar þrjár vikur, að laun forstjóra hafa hækkað um tæp 43 prósent á tímabilinu.
Þá hafa laun framkvæmdastjóra Íslandspósts hækkað um rúm tólf prósent. Að auki nýtur framkvæmdastjórn bifreiðahlunninda frá fyrirtækinu en árið 2015 greiddi Íslandspóstur 29,5 milljónir króna fyrir fimm jeppa og einn fólksbíl sem forstjóri og framkvæmdastjórar fyrirtækisins hafa til umráða samkvæmt ráðningarsamningum.