Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tekur undir með Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, að ekki sé þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Þetta kemur fram í fundargerð af fundi formanna stjórnmálaflokkanna um endurskoðun stjórnarskrárinnar, þann 16. janúar síðastliðinn. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók það aftur á móti fram á sama fundi að hún teldi það mikilvægt að formannanefnd ljúki því verkefni að endurskoða stjórnarskránna í heild sinni. Formenn Viðreisnar, Flokks fólksins og Framsóknarflokksins voru sammála þeirri bókun forsætisráðherra.
Nefndin skipuð vegna þess að ríkistjórnin vildi heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar
Í febrúar í fyrra skipaði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, nefnd um stjórnarskrármál í ljósi þess að ríkisstjórn hennar hafði sett í stjórnarsáttmála sinn að ríkisstjórnin vildi halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Nefndin er skipuð öllum formönnum þingflokkanna en yfirlýst markmið nefndarinnar er endurskoða núgildandi stjórnarskrá í heild sinni, á þessu og næsta kjörtímabili.
Kjarninn greindi frá því í desember í fyrra að á sjöunda fundi formannanefndarinnar, þann 8. október síðastliðinn, tilkynnti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokkinn, nefndinni að hann vildi láta færa til bókar að hann telji þess ekki þörf að endurskoða stjórnarskránna í heild sinni heldur sé ráð að vinna áfram með helstu ákvæði, auðlindir, umhverfi, þjóðaratkvæði og framsalsákvæði. Í bókuninni segir að hann beri samt virðingu fyrir að menn sjái þetta með mismunandi hætti en hann telji að hópurinn sé kominn á kaf í umræðu um atriði sem séu fyrir utan það sem hann telji þörf á að ræða.
Spurning hvort að forsendur vinnu nefndarinnar væru brostnar
Á fundi formannanefndarinnar, þann 16. janúar síðastliðinn, vildi Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar að fært yrði til bókunar að spurningarnar hafi vaknað hvort að forsendur áframhaldi vinnu nefndarinanr væru brostnar í kjölfar þess að Bjarni teldi að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar væri óþörf. Logi tók það fram að í minnisblaði Katrínar Jakobsdóttur um fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrárinnar komi skýrt fram að markmið formannanefndarinnar væri heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.
Í fundargerðinni segir að þá hafi nokkar umræður farið fram á fundinum um verklag og þær bókanir sem lagðar hafa verið fram á fundum formanna. Forsætisráðherra tók þá fram að hægt væri að vinna að endurskoðun með ýmsum hætti. Hún sagði jafnframt að hver og einn gæti til dæmis lagt fram sitt frumvarp og að hún telji að að útkoman verði betri ef menn leggi sig fram um að ræða saman. Að svo búnu lét Katrín færa til bókar að hún telji það mikilvægt að nefndin haldi áfram því verkefni sem hún lagði upp með frá byrjun, að endurskoða stjórnarskránna í heild sinni.
„Ég vil ítreka að fundir formanna hafa gengið vel og samkvæmt þeirri áætlun sem lögð var fram við upphaf vinnunnar. Ljóst er að fulltrúar flokkanna munu þurfa að taka reglulega afstöðu til vinnulagsins í þessu ferli. Enn fremur liggur fyrir að fulltrúar flokkanna hafa ólíka afstöðu til inntaks stjórnarskrárbreytinga. Ég tel mikilvægt að halda áfram því verkefni sem við höfum hafið sem er að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum og vonandi ná mikilvægum áföngum í breytingum á stjórnarskrá.“ sagði Katrín á fundinum.
Undir bókun forsætisráðherra tóku Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kvaðst hins vegar vilja taka undir bókun formanns Sjálfstæðisflokksins frá fundi nefndarinnar þann 8. október 2018.