Fjárfestingarsjóður í stýringu evrópska vogunarsjóðsins Teleios Capital hefur fest kaup á hlut í Marel fyrir um tvo milljarða íslenskra króna. Þannig átti sjóðurinn Teleios Global Opportunites rúmlega 5,22 milljónir hluta í Marel, sem jafngildir um 0,77 prósenta eignarhlut, samkvæmt lista yfir alla hluthafa félagsins í gær. Frá þessu er greint í Markaðinum í dag.
Árleg ávöxtun sjóðsins að meðaltali 17,6 prósent
Fjárfestingarsjóðurinn kom fyrst inn í hluthafahóp Marels í byrjun síðustu viku þegar hann keypti samanlagt fjórar milljónir hluta á genginu 402 eftir lokun markaða á þriðjudag. Teleiois Capital var stofnað árið 2013 og er með höfuðstöðvar í Sviss. Sjóðurinn var með eignir upp á samtals um einn milljarð Bandaríkjadala, jafnvirði um 120 milljarða króna, í stýringu síðasta haust en samkvæmt umfjöllun Markaðarins sjóðurinn fjárfestir einkum í skráðum evrópskum félögum.
Núverandi eignarhlutur Teleios Capital skilar sjóðnumekki á opinberan lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Marels. Stærsti hluthafi Marels er Eyrir Invest með tæplega 28 prósenta hlut. Þá eiga íslenskir lífeyrissjóðir samanlagt um 38 prósenta hlut. Í janúar var greint frá því að félagið Vogun, sem er í eigu Hvals, hafi fjárfest í Marel fyrir um milljarð króna. Félagið keypti 2,55 milljónir hluta, eða sem nemur tæplega 0,4 prósenta eignarhlut, í Marel um miðjan síðasta mánuð.
Hagnaðist um 12,1 milljarð árið 2017
Markaðsvirði Marel er nú um 278 milljarðar króna og gengi bréfa félagsins hafa hækkað um meira en tíu prósent það sem af er þessu ári og stóð í 407,5 krónum á hlut við lokun markaða í gær. Marel er stærsta fyrirtæki Íslands, hefur yfir að ráða um 6.000 starfsmenn í yfir 33 löndum. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri félagsins, hefur kynnt vaxtaráform fyrir komandi ár og er þar meðal annars horft til 12 prósent vaxtar að meðaltali á ári næsta áratuginn.
Tvíhliða skráning Marel er nú í burðarliðnum og þar horft til kauphallanna í Kaupmannahöfn, Amsterdam og London, en líklegt þykir að það muni skýrast á aðalfundi félagsins í mars. Í október verðmat greiningarfyrirtækið Stockviews í London Marel á tæplega 400 milljarða í nýrri greiningu og mældi með kaupum á bréfum félagsins, sé horft til næstu 12 mánaða.
Árið 2017 hagnaðist félagið um 97 milljónir evra eða sem nemur 12,1 milljarði króna. Marel mun birta uppgjör sitt fyrir árið 2018 eftir lokun markaða í dag, miðvikudag.