Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, mun ekki snúa aftur til starfa í bráð. Hann greindi frá því í stöðuuppfærslu á Facebook í dag að hann sé í áfengismeðferð hjá SÁÁ og að sú meðferð standi enn yfir. Ágúst Ólafur hefur því óskað eftir ótímabundnu veikindaleyfi frá störfum sínum á Alþingi á meðan að hann vinnur að því að ná bata.
Ágúst Ólafur segir að sú ákvörðun að fara í áfengismeðferð hafi reynst honum gæfuspor. „Ég hef þurft viðurkenna vanmátt minn og vera tilbúinn að þiggja aðstoð. Ég hef komist að því að vandi minn er meiri en ég hafði áttað mig á. Ég hef einnig upplifað á eigin skinni hvað sú þjónusta, fræðsla og ráðgjöf, sem SÁÁ veitir, er mikilvæg.“
Ágúst Ólafur hefur verið í leyfi frá þingstörfum frá 7. desember eftir að hafa verið áminntur af trúnaðarnefnd flokksins vegna kynferðislegrar áreitni gegn blaðamanni. Samkvæmt tilkynningu sem Ágúst Ólafur sendi frá sér 7. desember ætlaði hann að taka sér tveggja mánaða leyfi. Samkvæmt þeirri fyrirætlan hefði hann átt að snúa aftur til starfa í dag, föstudaginn 8. febrúar. Í yfirlýsingunni segir hann að hann skammist sín og iðrist mjög fyrir þá hegðun og þann dómgreindarbrest sem hann hafi sýnt af sér. „Ég vil biðjast aftur innilega afsökunar á háttsemi minni.“
Yfirlýsing hans í heild sinni er svohljóðandi:
„Fyrir tveimur mánuðum tók ég mér launalaust leyfi frá þingstörfum eftir að hafa sýnt af mér óforsvaranlega hegðun og fengið áminningu frá trúnaðarnefnd flokksins. Fyrir þá hegðun og þann dómgreindarbrest skammast ég mín og iðrast mjög. Ég vil biðjast aftur innilega afsökunar á háttsemi minni.
Sú ákvörðun að fara í áfengismeðferð hefur reynst mér gæfuspor. Ég hef þurft viðurkenna vanmátt minn og vera tilbúinn að þiggja aðstoð. Ég hef komist að því að vandi minn er meiri en ég hafði áttað mig á. Ég hef einnig upplifað á eigin skinni hvað sú þjónusta, fræðsla og ráðgjöf, sem SÁÁ veitir, er mikilvæg.
Það er fátt sem mig langar meira en að vinna í þágu réttlátara samfélags en ég þarf að setja heilsu mína og meðferð í forgang. Ég mun því óska eftir því að fara í veikindaleyfi frá störfum mínum á Alþingi á meðan ég vinn að því að ná bata. Tíminn mun leiða í ljós hvenær ég muni taka aftur sæti á þingi. Ég vona að fólk sýni þeirri ákvörðun skilning.“
Fyrir tveimur mánuðum tók ég mér launalaust leyfi frá þingstörfum eftir að hafa sýnt af mér óforsvaranlega hegðun og...
Posted by Ágúst Ólafur Ágústsson on Friday, February 8, 2019