Mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar segir að ásakanir um kosningasvindl sem komið hafa fram í tengslum við ákvörðun Persónuverndar séu alvarlegar og meiðandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Í tilkynningunni er fjallað um ákvörðun Persónuverndar, sem taldi borgaryfirvöld hafa brotið gegn þágildandi persónuverndarlög í átaki til aukinnar kosningaþátttöku í síðustu sveitarstjórnarkosningunum. Átakið fól í sér bréfasendingar og sms skilaboð til ungra kjósenda, konum 80 ára og eldri og erlendum ríkisborgurum þar sem þeir voru hvattir til að kjósa.
Kjarninn hefur áður fjallað um málið, en að mati Persónuverndar voru skilaboð í þessum sendingum gildishlaðin og til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þessara kjósenda í kosningunum. Reykjavíkurborg hefur nú birt umrædd bréf til ungra kjósenda, eldri kvenna og erlendra ríkisborgara, en þau má finna ef smellt er á hlekkina hér að ofan.
Einnig birti Reykjavíkurborg efni sms-skilaboðanna sem send voru til ungra kjósenda. Þau eru eftirfarandi:
Í DAG ERU KOSNINGAR
Þú hefur kosningarétt og þinn kjörstaður er
Það er auðvelt að kjósa, en mundu eftir skilríkjum!
Sent af Reykjavíkurborg
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifaði um ákvörðun Persónuverndar í fréttabréfi sínu síðastliðinn föstudag, en hann sagði borgina og aðra sem að verkefninu komu verði að draga lærdóm af því og rýna í það sem aflaga fór.
Í fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar segist Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar taka ákvörðun Persónuverndar alvarlega en segir hana þó koma á óvart í ljósi fyrri samskipta við stofnunina. Hún segir mikilvægt að bregðast við henni með faglegum hætti. Enn fremur segir Anna að ásakanir um kosningasvindl sem komið hafa fram í tengslum við umræðu og ákvörðun Persónuverndar séu alvarlegar og meiðandi.