VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna, sem er á meðal stærstu fag- og stéttarfélaga landsins með um 3.800 félagsmenn, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem þess er krafist að laun bankastjóra Landsbankans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur, verði lækkuð tafarlaust eða að einhver verði látin taka ábyrgð á launahækkuninni.
Í yfirlýsingunni segir enn fremur að með þessu innleggi bankans, að hækka laun bankastjórans í 3,8 milljónir króna á mánuði, sé verið að setja kjaraviðræður launafólks í uppnám. Um gífurlegan dómgreindarbrest sé að ræða sem launafólk á Íslandi muni ekki sætta sig við. „VM krefst aðgerða strax. Laun bankastjóra Landsbankans verði lækkuð tafarlaust eða að einhver verði látin taka ábyrgð. VM minnir á það að fólk í stjórn Landsbankans situr í umboði stjórnvalda á Íslandi. Það er ekki boðlegt að sífellt skuli vera slegið á putta almenns launafólks á Íslandi á meðan þeir hæst launuðu skammta sér launahækkanir upp á hundruð þúsunda eða milljóna í hverjum mánuði. Það dapurlega við þennan dómgreindarbrest er að þetta er ekki einangrað tilvik. Það er að verða regla frekar en undantekning að efsta lag atvinnulífsins er á tugföldum launum þeirra lægst launuðustu. Við það getur venjulegt launafólk ekki sætt sig við,“ segir í yfirlýsingunni.
Bankaráð Landsbankans hækkaði mánaðarlaun bankastjórans í 3,8 milljónir króna í apríl í fyrra. Með því hafa laun hans hækkað um 140 prósent á fjórum árum, sem er fjórum sinnum meiri hækkun en hjá almennri launavísitölu.
Íslenska ríkið á 98,2 prósent hlut í bankanum, bankinn sjálfur 1,5 prósent og 900 aðrir hluthafar, aðallega starfsmenn Landsbankans, eiga 0,3 prósent hlut. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur gagnrýnt launahækkunina harðlega, og sagt hana fara gegn tilmælum sem fjármála- og efnahagsráðherra sendi frá sér árið 2017, til allra ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja.
Bankaráð Landsbankans hefur hins vegar varið hana og sagði í yfirlýsingu sem það sendi frá sér í gær að breytingarnar „sem bankaráð hefur nú gert á kjörum bankastjóra Landsbankans eru í samræmi við starfskjarastefnu bankans sem hluthafar hafa samþykkt og hefur verið óbreytt í mörg ár.“