Flóttamenn á Íslandi hafa boðað til mótmæla í dag klukkan 16:00 við Hallgrímskirkju en gengið verður þaðan á Austurvöll. Helstu kröfur þeirra eru að ekki verði fleirum vísað úr landi og að flóttafólk fái sanngjarna málsmeðferð, auk þess að Dyflinnarreglugerðin og hinar einangruðu flóttamannabúðir á Ásbrú verði lagðar niður.
Samkvæmt því sem stendur á viðburði vegna mótmælanna á samfélagsmiðlinum Facebook var kveikur mótmælanna sá fjöldi brottvísana sem blasir við flóttafólki á Íslandi í hverri viku og það andlega og líkamlega ofbeldi sem hælisleitendakerfið er.
Útlendingastofnun afgreiddi 790 umsóknir um alþjóðlega vernd árið 2018, samanborið við 976 afgreidd mál árið 2017. 406 umsóknir voru teknar til efnislegrar meðferðar en þar af voru 111 mál afgreidd með ákvörðun í forgangsmeðferð. 152 mál voru afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, 70 mál voru afgreidd með synjun á grundvelli þess að viðkomandi höfðu þegar fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki og 162 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu frá þeim.
Auk þeirra 160 einstaklinga sem var veitt alþjóðleg vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum með ákvörðun Útlendingastofnunar fengu 35 alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi hjá kærunefnd útlendingamála, 41 einstaklingur fékk alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hér á landi sem aðstandandi flóttamanns og 53 einstaklingar komu hingað til lands og fengu alþjóðlega vernd í boði íslenskra stjórnvalda (kvótaflóttamenn). Samtals fengu því 289 einstaklingar alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi árið 2018. Þetta kemur fram í frétt Útlendingastofnunar þann 21. janúar síðastliðinn.
Flóttafólk í viðkvæmri stöðu
Á síðu fyrir viðburðinn á Facebook kemur fram að nú, árið 2019, hafi engar opinberar tölur verið gefnar út en fólkið sem á í hlut sé komið með nóg. Mótmæli geti ekki beðið, þar sem von sé á fjölda brottvísana á næstu vikum.
„Það er skýrt að með lokun landamæra sinna, hafa Evrópuríkin tekið afstöðu með upprunahyggju og rasisma á kostnað mannúðar og mannslífa.
Flóttafólk er eitt af viðkvæmustu hópum samfélagsins, en hafa þrátt fyrir það hugrekkið til að veita mótspyrnu. Sýnum samstöðu og mætum á miðvikudaginn!“