Íslensk stjórnvöld hafa nú tvo mánuði til að bregðast við niðurstöðu EFTA dómstólsins varðandi innflutning á fersku, kjöti, eggjum og mjólkurvörum. Þetta er niðurstaða rökstudds álits Eftirlitsstofnunarinnar EFTA, ESA, sem birt var í dag. Hafi íslensk stjórnvöld ekki brugðist við innan tveggja mánaða getur ESA, vísað málinu til EFTA-dómstólsins.
Samkvæmt íslenskum lögum þurfa innflutningsaðilar að sækja um sérstaka heimild ef þeir hyggjast flytja inn ferskt kjöt og aðrar kjötvörur, hrá egg, ógerilsneidda mjólk og mjólkurvörur unnar úr ógerilsneiddri mjólk. EFTA dómstóllinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að slíkar innflutningstakmarkanir væru brot á EES samningnum í nóvember 2017.
Bann á innflutning á hrárri kjötvöru, eggjum mjólkum ekki samræmi við EES-samninginn
Eftirlitsstofnun EFTA hóf athugun árið 2012 á hvort að íslensk lög væru í samræmi við skuldbindingar ríkisins samkvæmt EES-samningum í kjölfar kvörtunar frá Samtökum verslunar og þjónustu. Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, innmat og ýmsum mjólkurvörum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar. Samtökin töldu þetta bann ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti feli í sér landamæraeftirlit sem ekki sé í samræmi við löggjöf EES-samningsins.
Málið var sent til EFTA- dómstólsins árið 2017 og í kjölfarið féll dómur 14 nóvember 2017. EFTA- dómstólinn komst að þeirri niðurstöðu að að íslenska leyfisveitingakerfið fyrir innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins. Dómstóllinn telur að það sé ósamrýmanlegt fimmtu grein tilskipunarinnar að skilyrða innflutning á slíkum vörum.
Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu þann 11.október 2018 að íslenska ríkið hefði brotið gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum með því að halda við lýði banni við innflutningi á fersku kjöti hingað til lands.
Annað skref í meðferð samningabrotamála
Í dag birti síðan Eftirlitsstofnunarinnar EFTA, ESA, röksutt álit um málið. Í álitinu kemur fram að þar sem meira en fjórtán mánuðir hafa liðið síðan dómur EFTA- dómstólsins féll og íslensk stjórnvöld hafi ekki enn brugðist við niðurstöðu dómstólsins, hefur ESA tekið ákvörðun um að taka næsta skref í meðferð samningabrotamála en það er að senda stjórnvöldum rökstutt álit.
Í áliti ESA kemur fram að þann 16. janúar 2018 sendi stofnunin íslensku ríkisstjórninni bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvernig ríkisstjórnin ætlaði að fylgja eftir niðurstöðu EFTA- dómstólsins um að bann íslenskra stjórnvalda við innflutningi á fersku kjöti, ferskum eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk samrýmdist ekki EES-samningnum. Ríkisstjórnin svaraði bréfinu þann 19. febrúar 2018 þar sem fram kom að íslensk stjórnvöld væru að vinna að frumvarpi um breytingu á lögum um innflutning fersk kjöts. Í bréfinu kom einnig fram að stefnt væri að leggja fram frumvarpið fyrir þinglok.
ESA sendi aftur bréf til ríkisstjórnarinnar þann 22. mars 2018 til að fá staðfestingu á áætlunum ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin svaraði með bréfi þann 20. apríl þar sem fram kom að unnið væri að sækja um viðbótartryggingar varðandi salmonellu til ESA 4. júlí 2018. Þann 11. júlí sendi ESA ríkisstjórninn aftur bréf þar sem ítrekað var Ísland þyrfti að bregðast við niðurstöðu dómstólsins. Ríkisstjórnin svaraði síðan því bréfi þann 12. október síðastliðinn þar sem fram kom að frumvarpið væri komið á þingmálaskrá og stefnt væri að kynna frumvarpið í febrúar 2019.
Í lok álitsins, sem birt var í dag, kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi haft nægan tíma til að bregðast við niðurstöðu dómstólsins og því gefi stofnunin íslenskum stjórnvöldum tvo mánuði til að breyta lögunum en annars getur ESA vísað málinu til EFTA- dómstólsins.
Unnið að aðgerðum til að minnka áhættu af innflutning
Í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar, um hvernig ríkistjórnin hafi brugðist við niðurstöðu EFTA-dómstólsins segir að unnið hafi verið að viðbrögðum frá því að dómurinn féll í nóvember 2017. Í svarinu kemur fram að talin hafi verið rík þörf á því að undirbúa ekki eingöngu breytingar á lögum til samræmis við dóm EFTA-dómstólsins, heldur hafi stjórnvöld viljað tryggja að gripið sé til aðgerða þannig að breytingar á fyrirkomulagi innflutningseftirlits leiði ekki til aukinnar áhættu fyrir menn og dýr.
Því hafi samhliða undirbúningi á frumvarpi til breytinga á lögum um innflutning á kjöti, verið unnið að aðgerðum til að koma í veg fyrir að breytt fyrirkomulag innflutnings leiði af sér áhættu gagnvart heilsu manna og dýra. Ráðuneytið og Matvælastofnun hafi unnið að þessum undirbúningi frá því dómur féll. Meðal þess sem gert hefur verið er að sækja um viðbótartryggingar varðandi salmonellu til Eftirlitsstofnunar EFTA 4. júlí 2018. Hinn 16. janúar síðastliðinn var þessi umsókn íslenskra stjórnvalda síðan samþykkt og er stjórnvöldum þar af leiðandi heimilt að setja sérstakar viðbótartryggingar vegna salmonellu í kjúklingakjöti, hænueggjum og í kalkúnakjöti. Jafnframt hefur verið unnið að aðgerðum til að takmarka hættu vegna kampýlóbakter, sýklalyfjaónæmis. Í svarinu segir að í þeirri vinnu hafi verið leitað til erlendra sérfræðinga á sviði matvælaöryggis. Auk þessa hafa íslensk stjórnvöld átt fundi með fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnun EFTA um dóm EFTA-dómstólsins og áhrif þess hér á landi.