Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri RÚV, segir að umfjöllun RÚV um málefni Jón Baldvins hafi verið vönduð og Jóni hafi verið gefin mörg tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, sem hann hafi svo gert í löngu viðtali í Silfrinu. Magnús segir jafnframt að dagskrárstjórar og fréttastjórar telji sem fyrr að fréttagildi málsins hafi verið ótvírætt og ekkert sem bendi til annars en að vinnureglur og siðareglur RÚV hafi verið virtar. Þetta kemur fram í aðsendri grein Magnúsar Geirs sem birt var í Morgunblaðinu í dag.
Telja að fréttagildi málsins hafi verið ótvírætt
Í gær birtu Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram opið bréf til útvarpsstjóra RÚV í Morgunblaðinu. Í bréfinu saka hjónin dagskrárgerðarmennina Sigmar Guðmundsson og Helga Seljan um „tilhæfulausar ásakanir, rangar fullyrðingar og ærumeiðingar“, fyrst í viðtali í Morgunútvarpinu Rás 2 í janúar síðastliðnum og aftur í aðsendri grein Sigmars og Helga í Morgunblaðinu þann 8. febrúar síðastliðinn. Í bréfinu gefa hjónin útvarpsstjóra eina viku til að draga til baka „meiðyrðin“ í þeirra garð. Í bréfinu segir að verði útvarpsstjóri ekki við þeirri beiðni hyggjast Jón Baldvin og Bryndís stefna honum, starfsmönnum hans og viðmælendum fyrir rétt, til þess að fá „meiðyrði, ranghermi og tilhæfulausar ásakanir dæmdar dauðar og ómerkar.“
Í grein Magnúsar Geirs sem titluð er, Svar við opnu bréfi Jóns Baldvins og Bryndísar Schram, segir að þegar RÚV fjallaði um málefni Jón Baldvins höfðu birst fjölmargar fréttir í ólíkum fjölmiðlum sem byggðust á frásögnum fjölda kvenna af samskiptum við Jón. Hann segir jafnframt að umfjöllun RÚV hafi verið vönduð og Jóni hafi verið gefin mörg tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, sem hann svo gerði í viðtali í Silfrinu.
Hann segir jafnframt að dagskrárstjórar og fréttastjórar telji sem fyrr að fréttagildi málsins hafi verið ótvírætt og ekkert sem bendi til annars en að vinnureglur og siðareglur RÚV hafi verið virtar. „Fjölmiðlar eiga að vera fulltrúar almennings og í því felst að þurfa að taka á erfiðum málum. Með umræddri umfjöllun var Ríkisútvarpið að sinna sínu hlutverki og skyldum,“ segir Magnús
Hvetur Jón Baldvin og Bryndísi til að beina málinu í formlegan farveg
Í greininni segir Magnús að um Ríkisútvarpið gildi sérstök lög sem svo séu áréttuð í þjónustusamningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Einnig hafi RÚV sett starfsfólki sínu ítarlegar fréttareglur til að tryggja óhlutdrægni og sanngjarna málsmeðferð „Allt er þetta gert til að tryggja vandaðan fréttaflutning og dagskrárgerð. Störf Ríkisútvarpsins eru opinber og almenningur getur lagt sjálfstætt mat á þau en samkvæmt opinberum mælingum nýtur Ríkisútvarpið yfirburðatrausts meðal almennings.“ segir í greininni.
Magnús segir að ef einhver sé ósáttur við tiltekin atriði í fréttaflutningi taki RÚV fúslega við athugasemdum og svari með formlegum hætti. Ef viðkomandi sé síðan ósáttur við þá afgreiðslu sem hann fái segir Magnús að hægt sé að beina málinu til sérstakrar siðanefndar sem leggur sjálfstætt mat á framgöngu starfsmanna RÚV en að auki má benda á að allir geta skotið málum til Blaðamannafélags Íslands. Hann hvetur því Jón Baldvin og Bryndísi til að gera það ef þau telja hallað á sig. „Ef Jón Baldvin og Bryndís telja á sig hallað hvet ég þau til að beina málum í þennan formlega farveg sem er til staðar fyrir þau eins og aðra“