Tilboð Samtaka atvinnulífsins til verkalýðsfélaganna hljóðar upp á að laun upp að 600.000 krónum hækki um 20.000 krónur á mánuði hvert ár samningsins. Gert er ráð fyrir þriggja ára samningi og að laun umfram það hækki um 2,5 prósent. Þetta kemur fram í frétt RÚV í dag.
Í fréttinni kemur jafnframt fram að ekki sé gert ráð fyrir breytingum á vinnutíma í tilboðinu. Fulltrúar Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur ráði nú ráðum sínum og munu koma með gagntilboð á samningafundi sem hófst fyrir hádegi í dag.
Efling leggur fram gagntilboð
Eins og kom fram í frétt Kjarnans í gærkvöldi þá gerðu Samtök atvinnulífsins stéttarfélögum tilboð í vikunni um þriggja ára kjarasamninga að gefnum vissum forsendum, en nú hefur samninganefnd Eflingar samþykkt að leggja fram gagntilboð í dag. „Þar er komið til móts við kauphækkunarboð Samtaka atvinnulífsins, með því skilyrði að yfirvöld setji fram og standi við skattkerfisbreytingar,“ segir í frétt á vef Eflingar.
Stjórn Eflingar og samninganefnd samþykktu svo ályktun um skattastefnu, þar sem fyrsta skrefið fælist í þeim skattatillögum sem Stefán Ólafsson og Indriði H. Þorláksson hafa mótað í nýútgefinni skattaskýrslu sinni.
Þar er lagt til að tekjuskattar á 90 prósent almennings myndu lækka, en að tekjuhæstu fimm prósentin myndu borga meira. Stjórnin og samninganefndin krefjast þess að aðgerðirnar sem skýrslan leggur til verði innleiddar „strax á næstu fjárlögum, og að skattbyrði tekjulægstu hópa verði með öllu aflétt eigi síðar en árið 2021.“
Fólk orðið óþolinmótt
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, fjallar um stöðu mála í kjaraviðræðunum í föstudagspistli sínum. Þar segir hún að vikan hafi einkennst af viðræðum við stjórnvöld og óteljandi öðru samtölum, jafnt formlegum sem óformlegum, um hvernig hægt yrði að ná sem bestum kjarabótum í viðræðunum sem nú standa yfir. „Næsta vika ber vonandi í skauti sér skýrari mynd af stöðunni og hvers er að vænta bæði frá stjórnvöldum og atvinnurekendum. Fólk er auðvitað orðið óþolinmótt og það er vel skiljanlegt, ferlið hefur tekið lengri tíma en ætlunin var en vonandi verður útkoman þeim mun betri og heildarmyndin fyllri.“