Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru í Landsrétti í gær sakfelldir fyrir hluta þeirra brota sem þeim var gefið að hafa framið í Marple-málinu svokallaða. Hreiðar Már var sakfelldur fyrir fjárdrátt og Magnús fyrir hlutdeild í fjárdrætti.
Hvorugum var gerð refsing vegna brota sinna þar sem þeir hafa náð sex ára refsihámarki auðgunarbrota með fyrri dómum. Fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson, meintur eigandi félagsins Marple Holding, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, voru aftur á móti sýknuð af ákærum. Hægt er að lesa dóminn í heild sinni hér.
Millifærsla á þremur milljörðum króna
Ákært var í þremur liðum en sýknað í tveimur þeirra. Sakfellt var í lið sem sneri að millifærslu á þremur milljörðum króna frá Kaupþingi hf. til Kaupþings í Lúxemborg en þaðan enduðu peningarnir á reikningi félagsins Marple. Landsréttur telur í dómi sínum að þótt brot Hreiðars núna varði háa fjárhæð sé málið fjarri því eins yfirgripsmikið og þau brot sem hann hafi þegar verið fundinn sekur um og sætt refsingu fyrir. Landsréttur vísar í sömu rök varðandi niðurfellingu á refsingu Magnúsar, en hann var fundinn sekur um hlutdeild í brotum Hreiðars Más.
Skúli og Guðný sýknuð af öllum ákæruliðum
Fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson var hins vegar sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en hann hafði verið dæmdur í sex mánaða fangelsi í héraðsdómi. Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var einnig sýknuð af ákærum um fjárdrátt og umboðssvik, líkt og í héraðsdómi.
Landsréttur viðurkennir í dóminum skaðabótaskyldu bæði Magnúsar og Hreiðars Más gagnvart Kaupþingi ehf. vegna tjóns sem gat hlotist af háttsemi þeirra. Hreiðar Már og Magnús þurfa að greiða þriðjung málsvarnarlauna verjenda sinna í héraði og fyrir Landsrétti. Annar kostnaður fellur á ríkissjóð. Skaðabótaskyldu gegn Skúla og Guðnýju er hins vegar vísað frá dómi þar sem þau eru sýknuð.