Pálmi Haraldsson, fjárfestir, er orðinn stærsti einstaki einkafjárfestirinn í hluthafahópi Icelandair Group með rúmlega eins prósents eignarhlut. Þrjú félög í eigu Pálma, sem var áður aðaleigandi flugfélagsins Iceland Express, áttu samanlagt um 51,3 milljónir hluta, jafnvirði um 423 milljóna króna miðað við núverandi gengi bréfa Icelandair, í lok síðustu viku. Markaðsvirði Icelandair er um 41 milljarður. Frá þessu er greint í Fréttablaðinuí dag.
Hlutur Pálma metinn á 423 milljónir
Pálmi Haraldsson er fyrrverandi eigandi Fons og áður aðaleigandi flugfélagsins Icelandair express. Hann var á sínum tíma hluthafi í Icelandair og sat í stjórn flugfélagsins á árunum 2003 og 2004. Eignarhlutur Pálma í Icelandair er nú meðal annars í gegnum eignarhaldsfélögin Sólvöll og Ferðaskrifstofu Íslands en það fyrirtæki rekur ferðaskrifstofurnar Sumarferðir, Úrval Útsýn og Plúsferðir.
Hlutabréfaverð Icelandair hefur lækkað um 14 prósent frá áramótum og stendur nú í 8,25 krónum á hlut. Markaðsvirði félagsins er um 41 milljarður Stærsti hluthafi Icelandair er Lífeyrissjóður verslunarmanna með um 14 prósenta hlut en samanlagt eiga íslensku lífeyrissjóðirnir meira en helmingshlut í félaginu. Ekki má finna marga innlenda einkafjárfesta í hluthafahóp Icelandair en á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins er þar núna aðeins að finna fjárfestingafélagið Væntingu, sem er í eigu Bláa lónsins, með eins prósents hlut. Þá eiga félög í eigu Pálma sem fyrr segir samtals um 1,03 prósenta hlut. Eignarhaldsfélagið Traðarhyrna átti um skeið nærri tveggja prósenta hlut í Icelandair í gegnum safnreikning hjá Kviku banka en samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins er óljóst er hversu stór hlutur félagsins er í dag.
Rekstur Icelandair Group gekk nokkuð erfiðlega á síðasta ári og nam tap félagsins 55,6 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 6,7 milljarða króna. Þá dróst EBITDA félagsins verulega saman á milli ára og var 76,5 milljónir dala borið saman við 170 milljónir dala árið 2017.
Þórunn býður sig fram til stjórnar
Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals Útsýnar, mun bjóða sig fram til stjórnar á aðalfundi flugfélagsins sem fer fram 8. mars næstkomandi og nýtur hún stuðnings Pálma, samkvæmt Fréttablaðinu. Þórunn starfaði um árabil hjá Icelandair, meðal annars sem stöðvarstjóri í Kaupmannahöfn og hótelstjóri Hótels Loftleiða. Ásthildur Margrét Otharsdóttir, sem hefur verið stjórnarmaður frá árinu 2012, hefur ákveðið að gefa ekki áfram kost á sér í stjórn.