Leigufélagið Heimavellir hyggst hefja sölu nýrra íbúða við Hlíðarenda í mars. Heimavellir eiga 164 íbúðir á svonefndum E-reit en alls verða 178 íbúðir á reitnum fullbyggðar. Heimavellir hyggst selja ríflega 50 af 164 íbúðum, hinar fari í útleigu. Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, segir íbúðirnar sem fara í sölu munu verða á betra verði en gengur og gerist um nýjar íbúðir miðsvæðis í Reykjavík. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Selja 50 af 164 íbúðum
Guðbrandur segir, í samtali við Morgunblaðið, að um 75 íbúðir af 164 í eigu félagsins á E-reit komi til afhendingar í sumar. Í heild eru íbúðirnar á E- reit 178, þær skiptast þannig að 164 verði í eigu Heimavalla og 14 í eigu Frostaskjóls ehf. „Við fáum 164 íbúðir afhentar í tveimur áföngum. Þann fyrri í sumar og hinn seinni ári síðar. Húsin eru byggð eins og tvö L sem tengjast svo saman. Hlutinn sem verður afhentur í sumar snýr að Hringbrautinni. Þar eru um 75 íbúðir af þessum 164.“
Heimavellir hyggist selja stærri íbúðirnar og ætla að selja ríflega 50 af þessum 164 íbúðum. Hinar íbúðirnar fari í útleigu. „Flestar íbúðirnar sem við seljum eru yfir 75 fermetrar; þriggja, fjögurra og fimm herbergja. Fjöldinn getur breyst þegar líður á árið ef við teljum ástæðu til með því að auka hlutfall íbúða sem fer í sölu eða leigu,“ segir Guðbrandur.
Hóflegt verðlag
Guðbrandur segir reynslu Heimavalla af fyrri verkefnum benda til meiri áhuga á stærri íbúðum en minni þegar fermetraverð er yfir meðallagi. Hann segir aftur á móti að ekki sé búið að ákveða söluverð. „Þetta verður hóflega verðlagt miðað við það sem er í gangi í dag,“ segir Guðbrandur. Hann bendir svo á að allar íbúðirnar á Hlíðarenda verði með bílastæði og rúmgóða geymslu í kjallara. Ásamt E-reit verða reitir C með 162 íbúðir, D með 142 íbúðir og F með samtals nærri 500 íbúðir. Uppbygging þeirra er misjafnlega langt á veg komin. Fyrsta fjölbýlishúsið á Hlíðarendasvæðinu, Arnarhlíð 1, er á svonefndum B-reit. Það hús var afhent í fyrrasumar en samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins eru enn óseldar íbúðir í húsinu.
Guðbrandur segir marga bíða eftir íbúðum á Hlíðarenda. Þar sé náttúra, miðborgin og stærstu háskólarnir í göngufæri. Veðursæld sé á svæðinu. Mikið sé lagt í hönnun húsa og einsleitni brotin upp með ólíkum framhliðum. „Það hafa margir haft samband við okkur, ekki síst eldra fólk sem hefur búið lengi miðsvæðis, og spurt um íbúðirnar.“
Taka afstöðu um hvort að félagið verði afskráð úr kauphöllinni
Fyrir liggur tillaga um félagið Heimavellir verði afskráð úr kauphöllinni en hluthafar taka afstöðu til tillögunnar á aðalfundi 15. mars. Heimavellir er stærsta leigufélagið á almennum markaði og það eina slíka sem er skráð í Kauphöll Íslands. Það átti 1.983 íbúðir í lok september síðastliðins. Heimavellir tilkynntu til Kauphallar Íslands, í nóvember í fyrra, að félagið hefði ákveðið að selja eignir fyrir alls 17 milljarða króna á árunum 2018-2020 í stað tíu milljarða króna líkt og fram hafði komið í skráningarlýsingu Heimavalla sem birt var í vor.
Í tilkynningunni til kauphallarinnar kom fram að eignasalan muni „hafa þau áhrif á fjárhag félagsins að fjárbinding mun minnka, svo og tekjur lækka í samræmi við fækkun eigna. Þannig er gert er ráð fyrir að ársvelta 2019 og 2020 verði ríflega 3,5 milljarðar króna og áætlað að EBITDA hlutfall félagsins verði 64 prósent á árinu 2019 og hækki í 67-68 prósent á árinu 2020.“