Verslunarkeðjan Super 1, sem keypti nýverið þrjár verslanir Bónus sem Högum var gert að selja af samkeppnisyfirvöldum, kaupir hluta af innlendum vörum sem eru í boði í verslununum af Aðföngum, vöru- og dreifingarfyrirtæki Haga, samkvæmt upplýsingum Kjarnans frá völdum birgjum.
Að sögn Finns Árnasonar, forstjóra Haga var það hluti af sátt sem Hagar gerðu við Samkeppniseftirlitið vegna samruna félagsins við Olís að sá sem myndi kaupa Bónusverslanirnar af Högum gæti, kysi hann svo, tímabundið keypt inn vörur af Aðföngum. Um sé að ræða hluta af vöruvali Aðfanga en vörur sem séu merktrar verslunum Haga sérstaklega séu á meðal þeirra sem séu undanskildar.
Verslanirnar sem Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sports Direct á Íslandi og annar eigenda Boxins, keypti verða reknar undir merkjum Super 1. Þær eru staðsettar á Hallveigarstíg, í Faxafeni og Skeifunni. Verslunin á Hallveigarstíg opnaði síðastliðinn laugardag.
Sigurður Pálmi er sonur Ingibjargar Pálmadóttur, en faðir hennar stofnaði og rak Hagkaupsveldið um árabil. Eiginmaður Ingibjargar er Jón Ásgeir Jóhannesson, stofnandi Bónus. Félög tengd þeim hjónum eiga tæplega fimm prósenta hlut í Högum.
Hagar hafa undirritað kaupsamninga um allar eignir sem félagið þarf að selja til að uppfylla sátt við Samkeppniseftirlitið vegna kaupa þess á Olís. Óháður kunnáttumaður hefur skilað áliti og metið kaupendur eignanna hæfa.
Þurftu að selja verslanir og bensínstöðvar
Samkeppniseftirlitið heimilaði í september 2018 kaup Haga á Olís og fasteignafélaginu DGV hf. Samruninn var háður skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar gerðu sátt um. Þannig skuldbundu Hagar sig til aðgerða til þess að bregðast við þeirri röskun á samkeppni sem samruninn myndi annars leiða til.
Sigurður Pálmi samdi um kaup á verslununum þremur í október 2018. Óháður kunnáttumaður þurfti svo að votta kaupin og ganga úr skugga um að kaupin næðu tilgangi skilyrða samkeppnisyfirvalda og að nýir eigendur væru hæfir. Hann skilaði slíkri niðurstöðu nokkrum vikum síðar.
Á meðal þeirra skilyrða var að selja ofangreindar þrjár dagvöruverslanir og var það skilyrði sett til að samruninn myndi ekki styrkja markaðsráðandi stöðu Haga á dagvörumarkaði.
Sameinuðu félagi var einnig gert að selja fimm eldsneytisstöðvar sem reknar höfðu verið undir merkjum Olís og ÓB. Atlantsolía keypti þær stöðvar.