Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að það hafi legið fyrir frá því að núverandi ríkisstjórn var mynduð að hún væri ekki að „fara í hátekjuskatt“, í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun. Aðspurð hvort að kynntar verði frekari breytingar á skattkerfinu, þá svaraði Katrín að ríkisstjórnin hefði kynnt sínar skattabreytingar í gær. Hún sagði jafnframt að tillögur ríkisstjórnarinnar séu að umfangi um þrjátíu milljarðar á um þremur árum og þetta séu allt kerfisbreytingar sem stuðli að miklum samfélagslegum umbótum.
Ríkisstjórnin kynnti skattkerfisbreytingar sínar í gær
Ríkisstjórnin kynnti hugmyndir um þriggja þrepa skattkerfi í gær, á fundi sínum með forsvarsmönnum vinnumarkaðarins. Verði fyrirætlanir stjórnvalda að veruleika mun lægsta skattþrepið vera 32,94 prósent og skattbyrði lágtekjufólks því lækka um 2 prósentustig. Þetta kom fram í tilkynningu frá stjórnvöldum í gær ásamt fleiri breytingartillögum, en þetta er útspil stjórnvalda inn í kjaraviðræður.
„Breytingarnar eru í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar 2018. Þær munu sérstaklega bæta stöðu kvenna, fólks á aldrinum 18-24 ára, 25-34 ára, öryrkja, eldri borgara, þeim sem ekki eiga húsnæði og þeim sem þiggja húsnæðisstuðning. Bætt verður við nýju neðsta skattþrepi og fjárhæðum til lækkunar skatta beint til lægri millitekju- og lágtekjuhópa samkvæmt fyrirætlunum um breytingar í skattamálum sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag. Gert er ráð fyrir að tekjuáhrif skattkerfisbreytinganna nemi um 14,7 milljörðum króna. Hækkun barnabóta 2019 nemur 1,6 milljónum króna og hækkun persónuafsláttar umfram verðlag 1,7 milljónir. Alls nema því tillögur stjórnvalda í tekjuskatti og barnabótum 18 milljörðum króna,“ segir í tilkynningunni.
Féll í grýttan farveg hjá verkalýðshreyfingunni
Útspili stjórnvalda inn í kjaraviðræður var ekki vel tekið hjá verkalýðshreyfingunni en töluverðar vonir voru bundnar við að tillögur stjórnvalda myndi liðka fyrir viðræðum og setja þær í það minnsta nær sáttafarvegi. Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði eftir að útspil stjórnvalda hafði verið kynnt, að niðurstaðan væri vonbrigði, og hún liðkaði ekki fyrir kjaraviðræðum.
Jafnframt hafa VR, Efling, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur lýst yfir reiði og sárum vonbrigðum með tillögur ríkisstjórnarinnar. „Vonir stóðu til að aðkoma stjórnvalda gæti hleypt glæðum í viðræður. Ljóst er að tillögur stjórnvalda gera þær vonir að engu. Fundað verður í baklandi stéttarfélaganna á næstu sólarhringum og á fimmtudag funda formenn félaganna með SA hjá Ríkissáttasemjara. Samflotsfélögin standa sameinuð og staðföst í kröfunni um að launafólk geti lifað af launum sínum og að stjórnvöld geri löngu tímabærar kerfisbreytingar í réttlætisátt,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu sem undirrituð er af formönnum stéttarfélaganna fjögurra í gær.
Katrín bendir á að fleiri aðgerðir hafi verið kynntar en skattkerfisbreytingar
Í samtali við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun sagði forsætisráðherra að tillögur ríkisstjórnarinnar gætu skipt allan almenning á Íslandi miklu máli. Hún benti á að ríkisstjórnin hefði ekki aðeins kynnt skattkerfisbreytingar heldur einnig tillögur um að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði, tryggja félagslegar lausnir í húsnæðismálum og ráðast í alvöru aðgerðir gegn félagslegum undirboðum.
Katrín sagði jafnframt nýja skattþrepið væri töluverðar umbætur fyrir lægsta tekjuhópinn. Hún sagði þetta vera þriggja þrepa kerfi sem væri í raun „prógressívt“ skattkerfi. Jafnframt sagði hún að nýja skattkerfið myndi létta 80 þúsund króna skattbyrði af lægstu tekjuhópunum á ári og benti jafnframt á að með barnabótum myndu tekjulágar barnafjölskyldur hafa allt að 200 þúsund meira úr að spila á ári. Hún sagði jafnframt að lagt hefði verið til að afnema samnýtingu þrepa sem væri mikilvæg jafnréttisaðgerð.
Skattkerfisbreytingarnar féllu þó í grýttan jarðveg hjá verkalýðshreyfingunni en verkalýðsfélögin hafa sagt að um gríðarleg vonbrigði sé að ræða og að stjórnvöld hafi í raun aðeins boðið skattalækkun sem nemur 6750 krónur á mánuði. Í Facebook-færslu Drífu Snædal í gær kemur fram að tillagan að skattalækkunin á þá „hópa sem enn ná ekki endum saman“ dugi varla fyrir einni ferð í Bónus og sú lækkun eigi jafnframt að koma einhvern tímann á næstu þremur árum.
Virðist ekki vera von á frekar tillögum að skattabreytingum
Aðspurð um viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar sagði Katrín að ríkisstjórnin sé búin að vera „mjög heiðarleg“ frá upphafi og hafi sýnt spilin sín allt frá því að þau lögðu fram fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir ári. Hún sagði jafnframt að þetta væri svigrúmið sem sé til staðar og niðurstaða stjórnvalda hafi verið að útfæra skattkerfisbreytingu sem kæmi sér best fyrir tekjulægsta hópinn.
Helgi Seljan, þáttastjórnandi Morgunútvarpsins, spurði þá Katrínu hvort að skoðað hafi verið að setja á hátekjuskatt. Katrín svaraði þá að „það hefur væntanlega legið fyrir frá því að við mynduðum þessa ríkisstjórn að við værum ekki að fara í hátekjuskatt.“
Að lokum sagði Katrín að ríkisstjórnin vilji halda samtalinu áfram en aðspurð hvort að kynntar verði frekari breytingar á skattkerfinu en þetta, þá svaraði Katrín að ríkisstjórnin hefði kynnt sínar skattabreytingar í gær.