„Það leikur enginn vafi á útkomu kosninganna og ég lít ekki svo á að Persónuvernd sé yfir höfuð að fjalla um það.“ Þetta sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun.
Þar ræddi hann það að Reykjavíkurborg og rannsakendur við Háskóla Íslands hefðu notað persónuupplýsingar frá Þjóðskrá Íslands um unga kjósendur, erlenda ríkisborgara og konur 80 ára og eldri til að senda þeim skilaboð og bréf fyrir sveitastjórnarkosningarnar í maí 2018, með að það fyrir augum að auka kjörsókn þessara hópa.
Í ákvörðun Persónuverndar sem birt var í 7. febrúar kom fram að notkun og vinnsla Reykjavíkurborgar og rannsakanda við Háskóla Íslands hafi ekki í samræmi við lög um persónuvernd. Að mati Persónuverndar voru skilaboð í þessum sendingum gildishlaðin og til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þessara kjósenda í kosningunum.
Friðjón R. Friðjónsson almannatengill, sem situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hann, sagði á Twitter 11. febrúar síðastliðinn að mikilvægast í kosningum væri að koma sínum kjósendum á kjörstað. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar hafi ungt fólk verið lang líkegast til að kjósa Samfylkinguna.
Mikilvægast í kosningum er að koma sínum kjósendum á kjörstað, hópnum sem er líklegastur til að kjósa þig. Ef einn hópur er líklegri en annar þá einbeitr maður sér að honum. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar var ung fólk langlíklegast til að kjósa Samfylkinguna.... pic.twitter.com/mvPJHD61zT
— Friðjón Friðjónsson (@fridjon) February 11, 2019
Tillögu minnihlutans hafnað
Minnihlutinn í borgarstjórn lagði á þriðjudag fram tillögu í borgarstjóri um að sveitarstjórnarráðuneytinu yrði falið að skoða aðgerðir Reykjavíkurborgar í tengslum við kosningaþátttöku áðurnefndra hópa. Sú tillaga var ekki tekin til afgreiðslu. Þess í stað lagði meirihlutinn fram breytingartillögu sem var samþykkt og hljóðaði svona: „Borgarstjórn samþykkir að farið verði í samstarf við sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem farið verður yfir reynslu af verkefnum undanfarinna kosninga til að efla kosningaþátttöku, m.a. í ljósi ákvörðunar Persónuverndar. Markmiðið með samstarfinu er að leggja línur til framtíðar í samráði við viðkomandi stofnanir, ráðuneyti og frjáls félagasamtök og gera tillögur um með hvaða hætti er fært að hvetja til þátttöku í kosningum.“
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í borginni, sagði í kjölfarið að hann myndi sjálfur óska eftir því að ráðuneytið tæki upp málið og sagði að athæfi borgarinnar benti til þess að „brotavilji hafi verið til staðar, og það nokkuð einbeittur.“ Eyþór sagði á borgarstjórnarfundinum að þeir hópar sem borgin hefði nýtt sér aðstöðu sína til að hvetja til að mæta á kjörstað væru hópar sem meirihlutinn „taldi sér þóknanlega“.
Segir andstæðinga dylgja
Dagur sagði í viðtalinu í morgun að fram hefðu verið settar allskonar dylgjur um málið. Það hafði verið samkomulag í samfélaginu um að fara í hvatningarverkefni til að auka kosningaþátttöku. „Samband Íslenskra sveitarfélaga sendi bréf til framkvæmdastjóra allra sveitarfélaga í landinu 17. maí fyrir síðustu kosningar og hvatti þá til að hvetja sérstaklega ungt fólk og innflytjendur, með bréfum, til þess að auka kosningaþátttöku og sendi fyrirmyndir af bréfunum. Það voru fyrirmyndir sem lögðu áherslu á mikilvægi þess að kjósa og að fólk ætti að mæta á kjörstað.“
Dagur sagði enn fremur að í fimm tíma umræðum um málið í borgarstjórn hafi ekki verið hægt að nefna eitt einasta dæmi um að skilaboðin sem send hafi verið út væru að halla á einhvern flokk. Það sem hafi verið gildishlaðið skilaboðunum, send send voru út á valda hópa í aðdraganda kosninga væri hvatning til að kjósa. Það hafi ekki verið að hvetja fólk til að kjósa eitthvað ákveðið.
Hann líti svo á að það þurfi að skoða málið með hliðsjón af nýjum persónuverndarlögum, sem tekið hafa gildi síðan að kosningarnar fóru fram, ekki síður en þeim gömlu sem brotin voru svo það fáist leiðsögn til framtíðar um hvernig eigi að halda á svona málum. „Við lítum þannig á að niðurstaða persónuverndar liggi fyrir. Við þurfum að greina hana.“